Þuríður Pálsdóttir, söngkona og tónlistarkennari, lést í gær á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 95 ára að aldri.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Þuríður var frumkvöðull í tónlistarlífinu og söng í fjölmörgum óperu- og óperettuuppfærslum í Þjóðleikhúsinu, með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Íslensku óperunni, sem og í útvarpi og sjónvarpi.
Þuríður var lengi formaður Félags íslenskra einsöngvara. Hún sat í þjóðleikhúsráði frá 1978 og varð formaður þess 1983. Hún var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1991 til 1995.
Forseti Íslands sæmdi Þuríði riddarakrossi fálkaorðunnar árið 1982 en hún hlaut margar aðrar merkar viðurkenningar, meðal annars silfurmerki Félags íslenskra leikara. Einnig hlaut hún heiðursverðlaun Grímunnar árið 2008.
Eiginmaður Þuríðar var Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri. Hann lést 1987. Börn þeirra eru Kristín, Guðmundur Páll og Laufey.