Kona hefur kært mann á Sauðárkróki til lögreglu fyrir stafrænt kynferðisofbeldi og hótanir gegn sér. Um er að ræða fyrrverandi sambýlisfólk en stafræna ofbeldið á að hafa hafist eftir að konan fór frá manninum. Hefur maðurinn hótað að birta nektarmyndir af henni á síðu sem gerir fólki kleift að beita stafrænu kynferðisofbeldi. Þá er maðurinn sagður hafa birt nektarmynd af konunni í sturtu í Facebook-story. Hann hefur einnig birt ýmsar hótanir í garð konunnar á Facebook og reynir þar að selja notað, óþrifið kynlífstæki í eigu konunnar og boðar að með fylgi mynd af henni.
Vinkona konunnar hefur greint frá málinu í Facebookhópi. Frásögn hennar er eftirfarandi:
„Góð vinkona mín er mölbrotin, hún komst útúr ofbeldissambandi með barnsföður sínum eftir að hafa átt tvíbura með honum og hélt hún væri sloppin. Nei svo sannarlega ekki. Hann hótaði nokkrum mánuðum seinna að setja nektarmyndir sem hún sendi honum í sambandi inná síðu þar sem hægt er að beita konum stafrænu kynferðisofbeldi, hann hótaði bara ekki. Hann birti af henni nokkrar myndir kviknaktri í story á facebook. Hann hætti ekki þar heldur, eina áætlun hans er að vera enn með yfirhöndina. Hann ÆTLAR sér að mölbrjóta hana í ekkert. Hann reynir að selja notað óþrifið kynlífstæki frá henni á facebook, hann ætlar sér að niðurlægja hana. Hann er ekki hættur, hann skrifar niðrandi hluti í story/póst á facebookið sitt nánast á hverjum degi og býr til niðurlægjandi meme af henni. Hún er búin að kæra. En þegar loksins kemur að því að eitthvað gerist, hvað verður orðið um hana ?? Eg get ekki setið og horft uppá þetta. Afhverju fær hann í svona litlu bæjarfélagi eins og á Sauðárkróki að haga sér eins og versti ofbeldismaður, hvaða maður vill hafa svona mann í vinnu hjá sér ? Allir vinir/kunningjar/vinnufelagar hans og hennar sjá þetta á facebook. Vonandi sér einhver íbúi sauðarkróks þetta, og sjá að einstæð mölbrotin móðir getur ekki staðið í þessu ein. Ég vona að sem flestir/allir munu tilkynna hann á facebook, þá fær hún kannski smá frið í augnablik.“
Baráttuhópurinn Öfgar hefur kannað málið og fjallar um það á Twitter. Meðal annars eru þar birt skjáskot mannsins af Facebook þar sem hann hótar konunni stafrænu ofbeldi. Í einu skjáskoti segist hann vera búinn að hlaða upp myndum af konunni og býður upp á aðgang að myndunum í gegnum einkaskilaboð. Einnig birtir maðurinn afskræmda mynd af konunni ásamt hótunum í hennar garð.
Ofbeldisfullar færslur mannsins um konuna í Facebook-story eru sagðar vera nær daglegt brauð. Í einu skjáskotinu segir hann:
„Hvað er nú aftur nafnið á síðunni sem maður notar til að hefna sín á þeim sem svíkja mann? Hugsa að ég fái mér einn bjór og skoði þetta. Ps. Þú stelur ekki frá mér og kemst upp með það án þess að finna fyrir því.“
Öfgar segja um þetta framferði mannsins: „Það er galið að þetta fái að viðgangast á opinberum vettvangi án þess að lögregla aðhafist í málinu.“
Hermt er að lögreglan hafi ekki beitt sér í málinu eftir að kæra var lögð fram en DV hefur ekki heimildir fyrir því. Konan upplifir að minnsta kosti litlar aðgerðir.
Öfgar brýna Sauðkrækinga til að taka afstöðu í þessu máli, gegn ofbeldi. Þær skrifa:
„Það er annar ~meintur~ ofbeldismaður í ykkar bæ sauðkrækingar. Ekki líta aftur undan. Takið afstöðu með þolanda.“
Það er annar ~meintur~ ofbeldismaður í ykkar bæ sauðkræklingar. Ekki líta aftur undan. Takið afstöðu með þolanda. pic.twitter.com/4rJBbkxnyS
— Öfgar (@ofgarofgar) August 12, 2022