Fréttablaðið skýrir frá þessu og hefur eftir Bjarna Rúnari Heimissyni, framkvæmdastjóra Reiknistofu fiskmarkaða, að fiskverð hafi sennilega aldrei verið jafn hátt og núna, að minnsta kosti ekki í gegnum kerfi Reiknistofunnar en hún var stofnuð 1992.
Um 20% af öllum bolfiskafla fara í gegnum Reiknistofuna og hærra hlutfall á sumrin þegar strandveiðar standa yfir.
Kílóverð á slægðum þorski var undir 300 krónum í vor en er nú vel yfir sex hundruð krónur. Það er árviss viðburður að verðið hækki þegar strandveiðum lýkur og almennt er verðið hátt á haustin.
Það hefur áhrif á aðstæðurnar núna að þorskkvótinn var skertur, annað árið í röð, og minna framboð er af rússneskum fiski erlendis vegna stríðsins en það skilar sér í aukinni eftirspurn eftir íslenskum fiski. Bjarni sagðist telja að verðið sé komið upp að sársaukamörkum. „Ég sé ekki fyrir mér að verðið hækki mikið meira. Í fyrra vorum við í háum verðum fram í októberbyrjun. Þá fóru verðin að sveiflast, aðallega eftir veðri,“ sagði hann.