Samkvæmt nýrri rannsókn BHM, Samtakanna 78 og Hagfræðistofunnar hafa samkynhneigðir karlmenn að jafnaði þriðjungi lægri tekjur en gagnkynhneigðir karlmenn, þrátt fyrir að vera almennt menntaðri. Rannsóknin sýndi einnig að trans fólk hefur minna atvinnuöryggi en annað hinsegin fólk og að meirihluta hinsegin fólks finnist halla á kjör þess or réttindi á vinnumarkaði. Kjarninn greinir frá rannsókninni.
Guðfinnur Sigurvinsson, aðstoðarmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segir þessar niðurstöður ekki koma sér á óvart, enda endurspegli það veruleika sem hann sjálfur hafi lifað. Hann ritar um málið á Facebook.
Guðfinnur óskar landsmönnum gleðilegrar gleðigöngu og segir augljóslega þörf á göngunni en þó sé að hans mati meiri þörf á að sjá stuðning í verki alla hina daga ársins.
Guðfinnur segir að hommum sé yfirleitt haldið í öruggri fjarlægð frá því sem mestu skipti og geti mest gert sér vonir um millistjórnendastöðu. Undantekningin sé Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, en hann ætti þó ekki að vera einsdæmi.
„Niðurstaða þessarar könnunar um að hommar fái þriðjungi lægri tekjur, þrátt fyrir meiri menntun, kemur mér ekki á óvart enda veruleiki sem ég hef lifað. Við erum sannarlega með á vinnumarkaði en alltaf í öruggri fjarlægð frá því sem mestu skiptir. Getum gert okkur vonir um millistjórnendastöðu en erum ekki forstjórar, framkvæmdastjórar, bæjarstjórar eða almennt í leiðandi hlutverki. Þakklátur fyrir Mumma ráðherra en tilvist hans ætti ekki að vera svona einmanaleg.“
Guðfinnur segir að staðreyndin sé sú að hommar séu ekki hluti af karlaklíkunni á vinnustöðum og þeirri samtryggingu sem því fylgi og þeir njóti heldur ekki góðs af kvennasamstöðunni. Eins séu það hommarnir sem fái gjarnan að fjúka þegar komi að uppsögnum.
„Við erum á milli skips og bryggju og ekki metnir að verðleikum. Þykjum hressir og góðir fyrir móralinn, gerum óspart grín á eigin kostnað og erum glaumgosar í staffapartýum. Þar af leiðandi aldrei alveg teknir alvarlega. Þegar það slær í harðbakkann í rekstrinum og segja þarf fólki upp erum við oft fyrstir út enda höfum við margir ekki fyrir börnum að sjá og fáum að heyra um leið og uppsagnarbréfið er afhent að „þú ert svo duglegur og skemmtilegur að ég hef sko eeeengar áhyggjur af þér.” Jæja, ef frammistaðan er svona góð af hverju dugar hún þá ekki til að halda manni bara í starfi og jafnvel gefa framgang án þess að maður þurfi að klóra sig þangað með blóð á naglaböndunum og helst þegar enginn annar hefur áhuga á stöðunni?“
Guðfinnur segi rað hann hafi farið að vinna hjá RÚV fyrir mörgum árum síðan með hópi stráka. Þeir hafi allir verið menntaðir í stjórnmálafræði, með sama bakgrunn og á sama aldri. Munurinn hafi verið að Guðfinnur var sé eini sem var samkynhneigður.
„Það er svolítið magnað að ég fór með hópi stráka að vinna á RÚV fyrir mörgum árum. Við þekktumst allir, höfðum allir lært stjórnmálafræði og vorum á sama aldri. Höfðum nákvæmlega sama bakgrunn.
Munurinn á þeim og mér er sá að þeir fengu allir skjótan framgang. Þeir urðu vaktstjórar, aðallesarar frétta í útvarpi og sjónvarpi, stýrðu kosningasjónvarpi og burðarútsendingum, ritstjórar Kastljóss, varafréttastjórar og fréttastjóri… ekkert af þessu sem ekki var auglýst var mér boðið á neinum tímapunkti og það eru einmitt stöðurnar og reynslan sem þarf til að komast á toppinn.“
Guðfinnur hafi þurft að sækja tækifærin sín hart og í tvígang hafi honum verið sagt upp í rekstrarerfiðleikum – en ekki hinum strákunum.
„Flest verkefnin sem ég þó fékk grenjaði ég út og mörg ekki mitt fyrsta val og tvívegis var mér sagt upp í rekstrarhallæri en engum þeirra. Síðara skiptið drap fjölmiðladrauminn endanlega.“
Guðfinnur bendir á að fréttir séu að jafnaði lesnar með djúpri röddu hins gagnkynhneigða karlmanns.
„Hafið þið annars veitt því athygli að fréttir eru jafnan lesnar með djúpri heteró karlröddu? Ég þekki meira að segja fréttakonur sem hafa farið á raddnámskeið til að ná dýpri tón. Hvaða sögu segir það okkur? Ég er alveg nógu auðmjúkur til að taka því að kannski var ég bara ekki nógu góður ólíkt öllum hinum strákunum en af hverju hefur maður þá aldrei séð homma í leiðandi hlutverki á þjóðarfjölmiðlinum, þ.e. í öðru en skemmtiefni?“
Guðfinnur segir að RÚV sé ekki eini vinnustaðurinn þar sem hann upplifði þetta. Raunin sé sú að leiðin á vinnumarkaði sé lengri hjá hommum og leiði ekki á toppinn.
„Leiðin á vinnumarkaði er lengri hjá okkur hommunum og liggur um aðstoðarmennsku, millistjórn og alls konar styðjandi hlutverk áður en þessi hnausþykka íshella bráðnar. Við verðum þá bara að taka þann slag strákar, alveg eins og stelpurnar á undan okkur!“
Fyrsta skrefið sé að fá þessar upplýsingar á yfirborðið og miðla reynslunni. Þess vegna hafi Guðfinnur skrifað um sína upplifun – svo það verði til gagns og uppbyggingar og forsenda breytinga. Ekki sé ætlunin að koma höggi á einn né neinn.
„Það er mikið verk að vinna og ég þakka Samtökunum 78 og samtökum launafólks kærlega fyrir að stinga á þetta kýli. Það er svo auðvelt að gera lítið úr upplifun fólks og jafnvel gaslýsa þegar staðreyndirnar tala ekki sínu máli.“