Schröder lét þessi ummæli falla í viðtali við þýska tímaritið Stern. Hann sagði að nýlegur samningur Rússa og Úkraínumanna sem opnaði fyrir útflutning á korni frá Úkraínu hafi verið „fyrsti sigurinn“ og að út frá honum væri kannski hægt að mjakast hægt og rólega í átt að vopnahléi. „Góðu fréttirnar eru að Kreml vill semja um lausn,“ sagði Schröder.
En það sem Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, sagði eru ekki eins góðar fréttir fyrir Úkraínu. Hann sagði í gær að Rússar væru reiðubúnir til samningaviðræðna um lausn á stríðinu í Úkraínu en að slíkar viðræður geti aðeins farið fram á „rússneskum forsendum“.
Úkraínumenn taka orðum Schröders um samningavilja Rússa með miklum efa. Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra, skrifaði á Twitter að í ljósi harðra bardaga úkraínskra og rússneskra hermanna í austurhluta Úkraínu sé ekkert meira kaldhæðið en fullyrðing handlangara Pútíns um samningsvilja Rússa. Rússar séu einbeittir í að ætla að halda stríðinu áfram og allt annað sé bara yfirvarp.