Bílaþvottastöðin Löður hefur skilað meira en 1,6 tonni af stífu umbúðarplasti í endurvinnslu til íslensku endurvinnslunnar Pure North Recycling í Hveragerði það sem af er ári. Með því að endurvinna plast á Íslandi tryggir Löður 82% minna kolefnisspor á endurvinnslu á plasti samanborið við að endurvinna plastið í Evrópu.
Nýlega var undirritaður samstarfssamningur milli Löðurs og Pure North um alhliða umhverfisráðgjöf. Endurvinnslan er liður í markmiði Pure Norths og Löðurs í að stuðla að hringrásarhagkerfi og auka vitund á mikilvægi innlendrar endurvinnslu. Samkvæmt vottaðri umhverfisyfirlýsingu EPD (Environmental Product Declerations) er losun gróðurhúsalofttegunda af endurvinnslu plasts hjá Pure North 92 kg af koltvísýringi per tonn, sem er 82% lægra en meðaltals losun frá sambærilegum plastendurvinnslum í Evrópu. ,,Löður vill bera ábyrgð og minnka kolefnisspor félagsins. Við gerum það meðal annars með því að endurvinna allt plast hér á Íslandi. Okkar mottó er að plast verður aftur plast, vinnum saman að því markmiði að halda umhverfinu okkar hreinu. Það er stórkostlegt að sjá hvað hægt er að gera og fylgjast og vinna með fyrirtækjum eins og Pure North,“ segir Elísabet Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Löðurs.