Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí og lagt um leið áherslu á kröfur sínar um veröld án kjarnorkuvopna. Á síðustu mánuðum hefur heimsbyggðin verið óþyrmilega minnt á þá ógn sem enn stafar af þessum skelfilegustu vopnum sem mannkynið hefur skapað. Blóðugar styrjaldir í Úkraínu og víðar eru áminning um að sjaldan hefur verið mikilvægara að fólk haldi á lofti málstað friðarstefnunnar.
Samstarfshópur friðarhreyfinga stendur fyrir kertafleytingunni á Reykjavíkurtjörn og verður hún að þessu sinni haldin á Nagasakídaginn, þriðjudaginn 9. ágúst. Safnast verður saman á suðvesturbakkanum við Skothúsveg kl. 22:30. Silja Aðalsteinsdóttir rithöfundur og bókmenntafræðingur flytur stutt ávarp en fundarstjóri verður Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir. Að athöfn lokinni verður kertum fleytt á Tjörninni, en hægt verður að kaupa flotkerti á staðnum fyrir 500 krónur.
Kertafleytingar fara víðar fram en í Reykjavík, en sjaldan eða aldrei hefur verið fleytt á jafnmörgum stöðum. Á Ísafirði og Patreksfirði verða fleytingar á sama tíma og í Reykjavík, en á Akureyri hefst samkoman hálftíma fyrr. Á Egilsstöðum og í Seyðisfirði verða friðarsamkomurlaugardaginn 6. ágúst, á Hírósímadaginn.