Vísindamenn hjá Veðurstofu Íslands gerðu líkön, byggð á gervihnattagögnum, í gær sem sýna aflögun jarðskorpunnar. Benda þau til að kvikugangurinn undir Fagradalsfjalli liggi mjög grunnt, á um eins kílómetra dýpi undir yfirborðinu. Talið er að kvika flæði inn á tvöfalt meiri hraða en fyrir gosið í mars á síðasta ári. Morgunblaðið skýrir frá þessu.
Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, sagði að í gær hafi byrjað að rjúka úr jörðu á gosstöðvunum frá í mars og virðist það vera leið fyrir gas til að komast upp. Hún sagði þetta merki um að kvika sé nálægt yfirborðinu.
Veðurstofan sendi frá sér tilkynningu síðdegis í gær þar sem sagði að nú virðist vera að hægja á aflögun og skjálftavirkni og eins og staðan var síðdegis í gær. Á síðasta ári gerðist hið sama og var þá fyrirboði gossins. „Innskotið nú er meðfram nyrðri hluta kvikugangsins frá í fyrra og nær frá miðju gangsins hálfa leið að Keili. Líkurnar á því að það gjósi á svæðinu í kringum Fagradalsfjall á næstu dögum eða vikum hafa því aukist og eru taldar verulegar,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Ellefu ár eru liðin síðan Grímsvötn gusu síðast og þykir það langur tími því þar gýs venjulega á tíu ára fresti sagði Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.
Fluglitakóða Grímsvatna var breytt úr grænum í gulan í gær í kjölfar þess að nokkrir skjálftar, yfir 1 að stærð, mældust þar. Sá öflugasti var 3,6. Þykir skjálftavirknin í Grímsvötnum vera meiri en eðlileg bakgrunnsvirkni.