Eflaust fór kaldur hrollur um einhverja sem heyrðu þetta því Zirkon eru ofurhljóðfrá og geta dregið allt að 1.000 km. En eftir því sem Claus Mathiesen, hernaðarsérfræðingur við danska varnarmálaskólann, sagði í samtali við Jótlandspóstinn þá þurfa Úkraínumenn ekki að hafa miklar áhyggjur af þessum flugskeytum.
Hann sagði að rætt hafi verið um Zirkon-flugskeytin síðan 2015 eða 2016. Pútín hafi kynnt það til sögunnar 2018 til að sýna umheiminum að Rússland sé hernaðarveldi og því eigi önnur lönd að hlusta á Rússland og sýna landinu virðingu.
Zirkon-flugskeyti var í fyrsta sinn skotið frá kjarnorkuknúnu kafbáti í Hvítahafinu á síðasta ári á skotmark í Barentshafi. Flugskeytið náði níföldum hljóðhraði og dró 1.000 km.
Mathiesen sagði að um 9 metra langt ofurhljóðfrátt flugskeyti sé að ræða. Því sé skotið frá kafbáti eða stóru skipi. Það geti farið upp í 30-40 km hæð. Það þýði að það geti náð miklum hraða og því sé erfitt að skjóta það niður. Það sé hannað til að hæfa skip en Rússar segi að einnig sé hægt að skjóta því á skotmörk á landi.
Hann sagðist ekki telja að flugskeytið valdi neinum straumhvörfum í stríðinu í Úkraínu. Það sé fyrst og fremst hannað til að hæfa skotmörk á sjó og því sé erfitt að sjá hvernig það eigi að skipta einhverju máli fyrir stríðið í Úkraínu því Úkraínumenn eigi ekki neinn flota að heitið geti.