DV fékk um helgina ábendingar þess efnis að sérsveit Lögreglustjóra ríkisins hefði tekið þátt í nokkuð harkalegum aðgerðum á Seyðisfirði um helgina. Voru sérsveitarmenn fluttir á staðinn í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
DV hafði samband við Lögregluna á Austurlandi í morgun til að afla upplýsinga um málið en þá lágu þær ekki fyrir. Kl. 15:35 í dag brást lögreglan síðan við fyrirspurninni með tilkynningu á heimasíðu sinni. Er hún eftirfarandi:
Lögregla handtók tvo einstaklinga og haldlagði skotvopn. Einstaklingarnir voru látnir lausir úr varðhaldi stuttu síðar og er rannsókn málsins í gangi.
Sérsveit ríkislögreglustjóra tók þátt í aðgerðinni í samræmi við verklag lögreglu, en grunur var um að vopn væru á vettvangi.
Sérsveitarmenn voru fluttir á Egilstaði með þyrlu fyrir aðgerðina og að lokinni aðgerð voru þeir fluttir frá Seyðisfirði með þyrlu. Þyrlan var flutningstæki og tók ekki þátt í aðgerðinni sjálfri.
Lögregla veitir ekki nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.“