Tæplega 700 skjálftar mældust á Reykjanesskaga frá miðnætti í nótt og þar til rétt fyrir sjö í morgun. Flestir skjálftar eru á svæðinu norðaustan Fagradalsfjalls en þar hófst jarðskjálftahrina um hádegi í gær. Því eru alls komnir um 2500 skjálftar frá því í gær. Sá stærsti í nótt var að stærðinni 4,2 klukkan 04:06 en upptök hans voru rétt vestan við Litla Hrút.
Skjálftavirkni róaðist töluvert eftir klukkan 19 í gærkvöldi og hélst nokkuð stöðug þar til um 3:15 í nótt er hún tók aftur kipp í rúman klukkutíma og róaðist svo aftur.
Almannavarnir lýstu í gær yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinunnar. Óróapúls hefur mælst sem er merki um áhlaup kviku undir yfirborði jarðar og ekki útilokað að eldgos sé í vændum.