Stór skjálfti varð rétt fyrir klukkan sex í kvöld, en staðfest stærð skjálftans er 5,4 og átti hann upptök sín á 3,5 km dýpi 3 km frá Grundavík. Skjálftinn fannst mjög víða á suðvesturhorni landsins. Tilkynningar hafa borist um tjón frá Grindavík en engar tilkynningar hafa borist um slys á fólki. Fólk er hvatt til að gæta að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og gæta þess sérstaklega að ekkert geti fallið á fólk í svefni.
Í tilkynningu segir:
„Í dag laust fyrir klukkan 18:00 varð jarðskjálfti upp á 5.4, 3 km ANA Grindavíkur á 3.5 km dýpi. Skjálftinn fannst mjög víða á suðvesturhorni landsins. Tilkynningar um tjón hafa borist frá Grindavík en engar tilkynningar um slys á fólki. Almannavarnir fylgjast vel með framvindunni í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands.
Íbúar eru hvattir til þess að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni. Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að sýna aðgát við brattar hlíðar. Rétt er að geta þess að tjón á munum og eignum er tilkynnt á vefsíðu Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Ef slys hafa orðið á fólki er það tilkynnt til 112.
Í gær settu Almannavarnir á óvissustig Almannavarna vegna jarðhræringa á Reykjanesskaganum.“