Um klukkan 15 í dag lýstu Almannavarnir yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinu sem hefur verið í gangi á Reykjanesskaga frá því upp úr hádegi í dag og frameftir degi. Hefur Veðustofa Íslands sett Krýsuvík á gult vegna flugumferðar em mesta virknin hefur verið norðaustan við Fagradalsfjall. Stærsti skjálftinn í dag mældist 4,4 en margir skjálftar yfir 3 hafa einnig mælst.
Í tilkynningunni segir ennfremur:
„Íbúar eru hvattir til þess að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni. Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að sýna aðgát við brattar hlíðar.
Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi Almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila. Á óvissustigi fara viðbragðsaðilar og stofnanir yfir áætlanir sínar og viðbúnað.“
Samkvæmt viðtali mbl.is við Einar Hjörleifsson, náttúruvásérfræðing á Veðurstofu Íslands, er ekki hægt að útiloka að eldgos sé í vændum. Ef hlé yrði á skjálftunum gæti það verið undanfari eldgoss en ekki er komið að þeim tímapunkti ennþá. Óróapúls hefur mælst, sem er til til marks um áhlaup kviku undir yfirborði jarðar sem ekki hafi náð alla leið upp á yfirborðið.