Undanfarið hefur töluvert verið fjallað um innrás evrópska eldmaursins til Íslands, sem hófst fyrir 2-3 árum, en maurinn virðist heldur vera að sækja í sig veðrið.
Ungir líffræðingar, þeir Marco Mancini, Andreas Guðmundsson Gähwiller og Arnar Pálssonar, hafa mikið rannsakað eldmaurinn, sem og aðrar maurategundir á Íslandi og birt grein um efnið í tímaritinu Náttúrufræðingurinn.
Í greininni er hvatt til þess að yfirvöld fylgist vel með þróuninni enda eru eldmaurar ágengir á mörgum svæðum og geta verið fólki til ama. Eldmaurar eru í raun hættulegir mönnum út af þeim mikla sársauka sem bit þeirra valda stundum, sem og langvarandi sárum. Tveir starfsmenn sem komu að förgun tveggja eldmaurabúa í garði í hverfi 105 í Reykjavík voru til að mynda bitnir og upplifðu miklar kvalir vegna þess.
Í greininni er kallað eftir því að yfirvöld kanni betur hvort maurarnir hafi dreift sér víðar um höfuðborgarsvæðið.
Eldmaurafundurinn í póstnúmeri 105 kom til vegna samstarfs ungu vísindamannanna við Steinar Smára Guðbergsson meindýraeyði en hann hafði leyft þeim félögum að fara með sér í útköll. Vinátta og samstarf hefur orðið á milli Steinars og ungu vísindamannanna.
DV ræddi við Steinar sem segir að eldmaurar geti vissulega verið viðsjárverðir en ekki sé samt ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þeim. Mikilvægt sé hins vegar að fylgjast með vexti og viðgangi mauralífs á landinu. Gott er að tilkynna maura til Steinars í síma 897 5255.
„Maurar eru yfirleitt ekki hættulegir. Þeir passa búið sitt eins og geitungar, enda af sömu ættkvísl. Aftur á móti eru eldmaurar þannig að þeir drepa allt í kringum sig,“ segir Steinar og bendir á að hér á landi gætu eldmaurar útrýmt köngullóm ef þeir yrðu nógu margir. „Köngullær hafa þróað með sér náttúrulega vörn gegn maurum þannig að þegar maurinn grípur í löpp og ætlar að veiða hana þá er hún með sjálfvirkan sleppibúnað og rýkur í burtu en maurinn situr eftir með eina löpp.“ Steinar segir að þegar köngulóartegundir sem eru hér á landi hafi hins vegar ekki til að bera þennan náttúrulega varnarbúnað.
En eldmaurar eyða ekki bara köngulóm. „Í þessum garði þar sem við fundum tvö eldmaurabú þar var ekkert annað kvikt nálægt búunum, engir járnsmiðir, engar lýs, engar köngullær, ekkert.“
Steinar segir að eldmaur sé engan veginn orðinn stórt vandamál á Íslandi enn sem komið er en ef hann næði fótfestu og mikilli útbreiðslu gæti hann stuðlar að fábreyttara smádýralífi þar sem hann drepur svo mikið af öðrum skordýrum.
„Það væri kannski verst ef býflugur hyrfu vegna þess. Að vísu er það hæpið því þau búr hanga oft uppi í þakköntum eða uppi á þaki og evrópskur eldmaur nær ekki svo hátt. En þau eru vissulega oft á jörðinni, þau bú, t.d. undir bílskúrum.“
Steinar segir í gríni að honum líki ekki við eldmaura vegna þesss að þeir séu í samkeppni við hann. Á hann þar við að þeir eyði köngullóm en töluverður hluti útkalla meindýraeyða er vegna köngullóa. Í raun og vera hefur Steinar mjög gaman af öllum maurum og þykir þeir vera merkileg dýr. „Maurar eru skemmtileg dýr og mikil félagsdýr,“ segir hann en alþekkt er hvernig maurar sameinast í stórum hópum við flutning á fæðu.
Steinar rifjar upp að þegar þeir fundu eldmaurabúin tvö í hverfi 105 hafi hendur áðurnefndur Marco Mancini orðið fyrir miklum árásum mauranna sem þöktu hendur hans og bitu í þær. „Þeir bíta þig,“ segir Steinar en vill meina að afleiðingarnar séu sjaldan mjög slæmar. Áhættan sé svipuð og af stungu geitungs. „Þau skilja eftir roða. Þetta eru forritaðar skepnur og þegar mannshold verður fyrir þeim hugsa þeir: Hér er matur, best að bíta. Ef þú síðan ræðst á búið þeirra þá kemur öll hersingin og ræðst á þig.“
Steinar hefur reyndar efasemdir um að eldmaur geti breiðst mjög mikið út hér um landið vegna kaldrar verðráttu. Hins vegar ræðir hann einnig um húsamaur sem getur orðið mikil plága. Oft er ekki hægt að drepa hann sem gerir þetta enn erfiðara:
„Stundum koma þúsundir drottinga upp í einu lagi, upp úr gólfsprungum til dæmis eða niðurföllum. Þær geta yfirfyllt hús. Á sirka 6-8 mánaða fresti yfirgefa þær búin allar í einu til að hefja sitt eigið bú. En þeir snúa aldrei aftur í búið.“
Sem fyrr segir er erfitt að drepa húsamauar en ef karlmaurar finnast er hægt að lokka þá með eitruðum matarbita sem þeir bera í búið og veldur þá dauða allra maurana í búinu. „Við höfum komið í hús þar sem baðkarið er orðið svart af maur og vasa í fötum í fataskápum hafa fyllst af maurum,“ segir Steinar um húsamaurapláguna.
Steinar segir mikilvægt að tilkynna um alla maura, bæði til að hægt sé að útrýma þeim af staðnum en ekki síður til að viðhalda og efla þekkingu á mauralífi í landinu og þróun þess. Bein lína liggur frá honum til fræðimannanna ungu við HÍ sem eru að að rannsaka maura á Íslandi. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að tilkynna um maurabú og mauraplágur til Steinars í síma 897 5255.