Sky News segir að Belit Onay, borgarstjóri, hafi skrifað á Twitter að markmiðið með þessu sé að draga úr orkunotkun um 15%. „Þetta eru viðbrögð við yfirvofandi gasskorti sem hefur miklar áskoranir í för með sér fyrir sveitarfélögin, sérstaklega fyrir stórborg eins og Hanover,“ skrifaði borgarstjórinn einnig.
Meðal annarra aðgerða sem gripið verður til er:
Sá tími sem opinberar byggingar eru kyntar á tímabilinu frá október til mars verður styttur nema á leikskólum.
Hámarkshiti í íþróttahúsum verður 15 gráður og 20 gráður í öðrum opinberum byggingum.
LED perur verða settar í öll ljós.
Hreyfiskynjarar verða settir upp á salernum, hjólageymslum, bílastæðum og anddyrum í stað sífelldrar lýsingar.
Bannað verður að nota viftur og ofna.
Borgarstarfsmenn eru einnig hvattir til að draga úr notkun raftækja á borð við prentara og ísskápa.
Gripið hefur verið til svipaðra aðgerða í München, Leipzig, Köln og Nuremburg.