„Verður þú með geranda mínum um verslunarmannahelgina ?“Að þessu spyr þolandi 1639, eins og hún er skráð í gögnum Neyðarmóttökunnar í sláandi pistli hjá Stundinni. Þar gagnrýnir hún að gerendur slíkra brota þurfi margir ekki að sitja af sér neinn dóm í fangelsi, heldur fái refsinguna skilorðsbundna að fullu.
Gerandi hennar var dæmdur bæði í héraði og fyrir Landsrétti fyrir sérstaklega hrottalega nauðgun. Engu að síður var dómur hans skilorðsbundinn að fullu svo líkur eru á að maðurinn muni engum tíma verja bak við lás og slá.
„Þrátt fyrir að vera nýlega tvídæmdur gæti hann því setið við hliðina á þér í brekkusöngnum, eða staðið fyrir aftan þig í klósettröðinni á Síldarævintýrinu. Rétt eins og þú er hann eflaust að skipuleggja verslunarmannahelgina sína, því hann er alveg jafn frjáls og hann var áður en hann var fundinn sekur um eitt svívirðilegasta brotið í mannlegu samfélagi.“
Hún segir að rökstuðningurinn sem dómarar gáfu fyrir skilorðsbindingunni hafi meðal annars verið að rannsókn lögreglu hafi dregist á langinn og að langt væri liðið frá brotinu.
Bendir konan á að hún og maður hennar, sem var vitni í málinu, hafi verið kölluð í skýrslutöku til lögreglu en ekki hafi gefist tími til að taka skýrslu af manninum. Þá hafi liðið sex mánuðir áður en hann var boðaður til skýrslutöku að nýju.
Að sama bragði hafi verið tekin skýrsla af geranda hennar. En þau mistök hafi átt sér stað að upptökutækið klikkaði. Í stað þess að boða gerandann strax til skýrslutöku að nýju leið hálft ár áður en reynt var aftur.
„Ég get ekki ímyndað mér neinn annan vinnustað þar sem það myndi líðast að starfsmenn frestuðu því að leiðrétta eigin mistök að jafnaði í sex mánuði, á meðan verkefnið sjálft sæti á hakanum. Þó var Covid-faraldurinn ekki einu sinni hafinn.“
Mikið af sterkum sönnunargögnum lágu fyrir í málinu og reyndi verjandi gerandans þá að ráðist gegn trúverðugleika konunnar.
„Ég var sögð drottnunargjarn lygari, bæði í dómsal og utan hans. Ég átti að hafa valdið áverkunum sjálf, ég var sögð búa yfir „sjúkum hugarheimi“ og vegið var gróflega að starfsheiðri mínum.“
Konan rekur að erfitt hafi verið að koma því í orð fyrir dómi hvernig heimsmynd hennar hafi umbreyst við og eftir brotið.
„Það er erfitt að útskýra hvernig heimsmynd mín breyttist sólríka morguninn þegar ég lá undir þungum, þvölum líkama geranda míns og virti fyrir mér blóðug fingraför á veggnum, þar sem hann hafði stutt sig augnabliki áður. Ég vissi að það væri úr mér, en ekki hvaðan mér blæddi, né hversu slösuð ég væri. Ég vissi ekki hvort hnéskelin á mér væri sprungin eða hvort viðbeinið hefði brotnað, eða hvort það hefði verið heimskulegt af mér að spyrna svona kröftuglega á móti. Skömmu síðar sat ég í hnipri ofan í baðkarinu og horfði á blóðpollinn vaxa útfrá mér, kringlóttur með tættum börmum, eins og rauður punktur á eftir ósagðri setningu sem ég reyndi af veikum mætti að mæla af vörum fyrir dómi mörgum árum seinna, þrátt fyrir niðrandi athugasemdir og frammíköll verjandans.
Orðum mínum var mætt með skil-orðum; táknrænni gervirefsingu sem skal niður falla að þremur árum liðnum, eins og þykjustuleikur sem allir geta hætt að taka þátt í eftir 36 mánuði. Ólíkt sakborningum mega þolendur ekki áfrýja málum sínum, svo ég hafði ekki um annað að velja en að kyngja niðurstöðunni.“
Í kjölfar dómsins hafi hún gengið í gegnum sorgarferli, yfir því að eftir að hafa barist í gegnum dómskerfið hafi réttarkerfinu þótt glæpurinn ekki alvarlegri en svo að gerandi hennar geti um frjálst höfuð strokið, mætt til vinnu og verið frjáls ferða sinna.
Hún hafi heyrt frá vinkonu sinni sem búi á öðru Norðurlandi að þar sé ólöglegt að skilorðsbinda nauðgunardóma að fullu. Slík lög gildi víða um heim – en ekki á Íslandi. Hún segir frá því að löglærður aðili sem hún hafi leitað til hafi spurt hana hvað hún vildi meira, maðurinn væri kominn með dóm og hún hefði sigrað málið.
„Undirtónninn var að ég ætti bara að vera þakklát fyrir að réttarkerfið hafi yfir höfuð viðurkennt að ofbeldið hefði átt sér stað. Hvurslags heimtufrekja er það eiginlega að ætlast til að gerandinn taki ábyrgð á gjörðum sínum í ofanálag og sæti refsivist? Gaslýsingin var slík að mig svimaði. Upp er niður. Refsing er refsileysi. Sektardómur er frelsi. Maðurinn er kominn á sakaskrá, þú sigraðir, vertu ekki svona hefnigjörn, varla viltu taka hann af lífi?“
Veltir konan fyrir sér hvernig öðrum konum í hennar sporum líður með að geta hvenær sem rekist á geranda sinn. Hvort þær hafi gripið á það ráð að flytja, eða hvort þær treysti sér til dæmis á útihátíð.
„Kæra þjóð, ég vona að þið njótið ykkar um komandi helgi, sem er því miður þekkt fyrir fjölda kynferðisbrota. Ef einhver í lífi þínu verður fyrir slíku ofbeldi, og telur ekki þess virði að kæra, vona ég að þú sýnir því skilning og áttir þig á hvaða hlutverki réttarkerfið gegnir í að viðhalda vandamálinu. Ég vona líka að þér finnist við öll eiga betra skilið. Fyrsta skrefið í átt til breytinga er ákvörðun þín um að þú viljir búa í samfélagi þar sem réttarkerfið tekur skýra afstöðu gegn ofbeldi. Ekki eftirláta þolendum einum þá baráttu. Það er óraunhæft að ætlast til að þau, sem kerfið brýtur grófast gegn, lagfæri það líka.“