fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

Þetta er ástæðan fyrir því að ríkisstarfsmenn fara auralausir inn í verslunarmannahelgina

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 28. júlí 2022 15:30

Verslunarmannahelgin verður án efa erfiðari fyrir marga ríkisstarfsmenn vegna þessa - Mynd/Vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Greint var frá því í vikunni að ríkisstarfsmenn myndu ekki fá greidd laun fyrir verslunarmannahelgi eins og venjan yfirleitt er. Varð það þá ljóst að fjölmargir ríkisstarfsmenn færu auralausir inn í eina stærstu ferðahelgi ársins. Fréttir um málið hafa vakið töluverða ólgu hjá þeim ríkisstarfsmönnum sem höfðu reiknað með laununum fyrir ferðalög og skemmtanir um helgina.

Þórarinn Ey­fjörð, vara­for­maður BSRB, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að þetta væru kaldar kveðjur til ríkisstarfsmanna, sérstaklega til þeirra starfsmanna sem hafa haldið uppi heilbrigðiskerfinu og öðru mikilvægu í baráttunni gegn kórónuveirunni undanfarin ár.

„Án þess að vita hvaða rök eða mál­efna­legu á­stæðu þau hafa fyrir þessari á­kvörðun, er það á­kaf­lega baga­legt ef ríkis­valdið er að koma fólki í vand­ræði eða láta það kosta aukin út­gjöld með því að tefja launa­greiðslu. Þetta gera al­menni­legir launa­greið­endur ekki,“ sagði Þórarinn.

Nú hefur Fjársýsla ríkisins, sem ber ábyrgð á því að launagreiðslurnar koma ekki fyrir helgi, birt yfirlýsingu vegna málsins. Í yfirlýsingunni er útskyrt hvers vegna launin koma ekki fyrr en eftir helgi.

„Laun ríkisstarfsmanna skulu greidd fyrsta virkan dag hvers mánaðar samkvæmt 10. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ákvæði ráðningarsamninga ríkisstarfsmanna. Launagreiðslur hafa verið framkvæmdar í samræmi við það frá setningu laganna. Því er ekki um breytta framkvæmd að ræða nú enda hefur Fjársýslan engar heimildir til að gera annað,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá er skuldinni skellt á uppfærslu á greiðslukerfum viðskiptabankanna. „Í eldri greiðslukerfum voru stórar greiðsluskrár s.s. launagreiðslur ríkisins, keyrðar handvirkt utan hefðbundins álagstíma til að tryggja að greiðslur næðu örugglega að skila sér á réttum tíma,“ segir Fjársýslan.

„Þetta þýddi að í einhverjum tilfellum gerðu bankarnir þessar greiðslur aðgengilegar fyrir fyrsta dag mánaðar þótt greiðsludagur launa væri fyrsta virka dag næsta mánaðar. Á undanförnum árum hefur verklag þeirra verið að breytast og frá febrúar 2022 hafa laun alfarið verið greidd með nýju greiðslukerfi bankanna þar sem greiðslur berast viðtakendum fyrsta virka dag hvers mánaðar.“

Að lokum segir í tilkynningunni að Fjársýsla ríkisins muni koma ábendingum og athugasemdum sem henni berast vegna gildandi launagreiðslufyrirkomulags til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“