Kona sem sakfelld var sumarið 2021 fyrir líkamsárás á aðra konu áfrýjaði dómi sínum til Landsréttar og krafðist sýknu. Landsréttur staðfesti dóminn í apríl síðastliðnum en þar sem ekki hefur tekist að birta konunni þann dóm var hann í dag birtur í Lögbirtingablaðinu. Nokkuð algengt er að ekki takist að birta sakborningum dóma en óvenjulegt er að aðilar sem áfrýja dómi sínum til Landsréttar láti ekki ná í sig þegar dómsniðurstaða er fengin.
Atvikið sem ákært var fyrir átti sér stað þann 18. nóvember árið 2019 í heimahúsi á Akranesi. Þegar lögregla kom á vettvang var konan sem varð fyrir árásinni með sýnilega áverka auk þess sem blóðslettur voru á fötum hennar og í íbúðinni. Hafði soðið upp úr þegar tal kvennanna barst að barnsföður árásarkonunnar. Er þessu lýst svo í texta héraðsdóms:
Er lögregla kom á vettvang hitti hún fyrir brotaþola í íbúð sinni á 2. hæð, sem kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás af hendi ákærðu. Var brotaþoli með sjáanlega áverka og voru blóðslettur á fatnaði og um íbúð hennar. Lögregla fór þá að íbúð ákærðu, við hlið íbúðar brotaþola. Var ákærða þar þá stödd í annarlegu ástandi og ekki viðræðuhæf. Lögregla ræddi þá aftur við brotaþola sem lýsti því að hún og ákærða hefðu um nóttina setið við áfengisdrykkju og spjallað saman. Er tal þeirra hefði borist að barnsföður ákærðu hefði ákærða skyndilega ráðist á hana, kýlt hana í andlit og klórað. Þá hefði komið þar að kona, búsett á sömu hæð, sem stöðvað hefði átökin og fjarlægt ákærðu.
Brotaþoli leitaði læknis daginn eftir meinta árás og samkvæmt áverkavottorði læknisins reyndist hún þá með grunn rifsár beggja vegna, hliðlægt á hálsi og að aftan. Rifsár voru einnig neðan við nef og hliðlægt við munn, auk þess sem varir voru léttbólgnar. Þá voru rifsár, bólgur og mar á enni og aumar kúlur á báðum gagnaugum. Eymsli voru í vöðvum í hálsi, meira hægra megin, og marblettir á útlimum. Loks kemur fram í vottorðinu það álit læknisins að fyrrgreindir áverkar geti svarað til lýsingar brotaþola á því ofbeldi sem hún hafi sagst hafa orðið fyrir af hendi nágrannakonu sinnar umrætt sinn, á þann veg að sú hefði kýlt hana, aðallega í andlitið, klórað og rifið í hana, auk þess að hrinda henni þannig að hún hefði rekið hægri olnbogann í.
Brotaþola og hinni ákærðu bar engan veginn saman þegar þær lýstu átökunum fyrir dómi. Lýsti árásarkonan sig saklausa af ákæru um líkamsárás. Hún var hins vegar fundin sek og dæmd í 60 daga skilorðsbundið fangelsi. Jafnframt var hún dæmd til að greiða þolandanum 300 þúsund krónur í miskabætur. Hún áfrýjaði til Landsréttar.
Sem fyrr segir staðfesti Landsréttur þennan dóm í vor en dómana má lesa hér.