Sturla B. Johnsen heimilislæknir hefur birt yfirlýsingu vegna ásakana um kynferðisofbeldi. Áður hefur DV greint frá því að hann sé kominn í leyfi frá störfum vegna slíkra ásakana.
Í yfirlýsingunni sver Sturla af sér ásakanir um að hafa brotið á sjúklingum eða misnotað aðstöðu sína á nokkurn hátt gagnvart nokkrum einstaklingi. Hann játar hins vegar að hafa viðhaft óheppilegt orðaval í samskiptum sínum við konur. Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„19. júlí síðastliðinn birtist nafnlaus færsla inni á Facebook hópnum Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu þar sem bornar eru þungar sakir, meðal annars nauðgun, á heimilislækni og honum lýst þannig að þeir sem vilja vita eiga auðvelt með að komast að því um hvern ræðir. Síðar í umræðuþræðinum er ég svo nafngreindur sem sá læknir. Ég vil byrja á því að taka hér fram að ég hef aldrei brotið kynferðislega gegn öðrum einstaklingi. Aldrei. Né hef ég nýtt starf mitt sem læknir til að brjóta á eða misnotaða aðstöðu mína á nokkurn hátt gegn sjúklingum mínum eða öðrum einstaklingum. Aldrei.
Ég get samt ekki skorast undan því, þó ég ætli ekki að fela mig á bakvið þá staðreynd, að ég er mannlegur. Mannlegheitum fylgir breyskleiki og ég get játað mig sekan um það að ég hef mátt vera nærgætnari í orðavali við konur því það er ekki fullorðnum karlmanni sæmandi að ávarpa allar konur til dæmis sem prinsessur eða kalla þær elskulegar. Ég tek það til mín og mun vanda betur orðaval mitt í framtíðinni og vil biðja þær konur sem ég hef sært blygðunarkenndina hjá með orðum mínum innilega afsökunar.
Því fylgir mikil ábyrgð að eiga í samskiptum við aðra manneskju og á það við í starfi og í lífinu almennt. Því fylgir einnig mikil ábyrgð að bera aðra manneskju þungum sökum í skjóli nafnleyndar á samfélagsmiðlum. Ég, bæði sem læknir og sem manneskja, hef ekkert að fela. Það breytir því þó ekki að því fylgir einnig mikil ábyrgð að reka heilsugæslu og snýr sú ábyrgð bæði að samstarfsfólki mínu og þeim sjúklingum sem heilsugæsluna sækja. Af virðingu við fyrirtækið sem ég hef ásamt öðrum lagt hart að mér að byggja upp og einnig af virðingu við það góða fólk sem þar vinnur og þangað sækir ákvað ég að taka mér leyfi frá störfum. Það erfiða skref tek ég vitandi að ég hef aldrei gerst sekur um þær þungu sakir sem á mig eru bornar. Aldrei.“