Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Í gær funduðu sérfræðingar Veðurstofu Íslands með vísindamönnum frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og fulltrúum almannavarna um þróun mála í Öskju síðustu mánuði. Voru landbreytingar og jarðskjálftagögn rædd.
Óvissustig almannavarna er í gildi við Öskju og er fylgst vel með svæðinu.
Fréttablaðið hefur eftir Magnúsi Tuma að óvíst sé hversu lengi þessi virkni muni vara og hvernig þróunin verði: „Þetta gæti hætt á næstunni og þá gerist ekki meira. Þetta gæti haldið áfram í töluverðan tíma og þá kannski hætt og svo gæti þetta haldið áfram í töluverðan tíma og endað með gosi.“
Hann sagði ekki hægt að fullyrða að til goss komi en þar sem lítil jarðskjálftavirkni fylgi kvikusöfnuninni þá bendi það til að Askja eigi svolítið inni og geti safnað meiri kviku áður en bergið brestur og kvikan leitar upp á yfirborðið.
Nánar er hægt að lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.