Haraldur Logi Hrafnkelsson lést á Tenerife þann 6. febrúar í hryllilegum harmleik eftir að eldur kom upp í bílageymslu við heimili hans. Rannsókn á tildrögum slyssins stendur enn yfir en ekkja Haraldar, athafnakonan Drífa Björk Linnet, fann sig knúna til að opna sig um slysið og rannsókn þess á Instagram vegna rætinna kjaftasagna sem hafa gengið hér á Íslandi undanfarna mánuði.
Drífa veitti DV góðfúslega leyfi til að gera grein fyrir færslunni.
„Ég hefði viljað fyrir löngu geta sett inn fréttir af gangi mála hjá elsku Halla mínum fyrir ykkur sem þóttu vænt um hann. Fólk hefur búið til allskonar „smekklegar“ útgáfur af málinu sem er frekar ómanneskjulegt sérstaklega þar sem það eru börn á heimilinu og ég óska þeim alls ekki að heyra hvað óvandað mannfólk er að búa til um látinn pabba þeirra.
En mannfólkið ætlar víst aldrei að læra af þessu né geta vanið sig af þörfinni á að slúðra. Eins ósjarmerandi og það nú er.. Ekki einu sinni þó það sé á kostnað syrgjandi aðstandenda eða látinn manns sem átti allt gott skilið og rúmlega það.“
Drífa útskýrir að í rauninni sé ekkert að frétta af rannsókn málsins. Hún sé enn opin og óvíst hvenær henni ljúki. Drífa rekur svo hvað átti sér stað þennan örlagaríka morgun í febrúar þegar harmleikurinn átti sér stað.
„Við fjölskyldan vöknum á sunnudagsmorgun við að það er komin upp eldur í húsinu okkar á Tenerife. Eftir að [x] elsta dóttir mín vaknar og hleypur í panikki út og nánast inní eldinn – kallar hún á mig að það sé kviknað í.
Ég hringi í geðshræringu á 112 og lögregla og slökkvilið mæta, koma okkur út og fara að ráða niðurlögum eldsins.
Þegar það er búið, koma þeir til mín og segjast hafa fundið manninn minn í einni af tveimur bifreiðum í bílskúrnum og hafi hann strax verið úrskurðaður látinn.“
Í kjölfarið hafi Drífa farið upp á lögreglustöð til að gefa skýrslu og síðan hafi hún þurft að finna fjölskyldunni samastað þar sem íbúðarhúsnæðið var óíbúðarhæft.
„Á meðan ég er að reyna að finna Hótel, vissu börnin ekkert og spurðu í sífellu hvort ég ætlaði ekki að hringja í pabba þeirra og segja honum að það hafi kviknað í. Eftir að ég er búin að innrita mig á hótelið segi ég börnunum fréttirnar um að pabbi þeirra sé dáinn.“
Rannsókn hafi í kjölfar hafist á atvikum. Fljótlega hafi legið fyrir bráðabirgðaskýrsla en hún hafi svo legið mánuðum saman á borði dómara áður en hún var metin frekar. Drífa hafi varið þremur mánuðum á hótelinu með börnum sínum og nýtt tímann á meðan þau voru í skóla til að reyna að fá upplýsingar um hvað hefði átt sér stað og hvenær hún gæti jarðað mann sinn. Svo hafi hún ákveðið að fara til Íslands.
„Það var eftir á að hyggja afleit hugmynd því ég hélt einhvern veginn að við værum þá komin í ákveðið öryggi þar sem okkur myndi líða betur en það var alls ekki raunin, en ég fer út í það í smáatriðum síðar. Það er efni í heila bók. Frá Íslandi held ég svo áfram að reyna að vinna í að koma Halla heim enda orðin verulega þangþreytt á þessu öllu, fá ekki ásættanleg svör, né almennilegan nætursvefn.
Dómstóll götunnar passaði að vera alltaf á vaktinni til að gera harmleikinn okkar enn sorglegri á meðan ég reyndi að gera allt sem ég gæti til að kalla fram bros eins oft og ég gæti á lítil hjörtu sem enn voru í sjokki. Ég hef reynt að halda mig eins mikið erlendis og ég mögulega get á meðan ég er að brasa í þessu og okkur líður betur úti og erum meira fókuseruð.
En þá mæta auðvitað sérfræðingar götunnar aftur og fullyrða að mér hljóti að vera alveg sama um manninn minn þar sem ég sé bara alltaf á ferðalagi. Ég leyfi svona meisturum bara að moka yfir sig í rólegheitum því þetta auðvitað dæmir sig sjálft.“
Nú sé svo komið að lögregla hafi útilokað að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað, og eins útilokað að Halli hafi tekið eigið líf. Nú sé verið að kanna aðra þætti sem gætu skýrt brunann og hvers vegna Halli hafi ekki vaknað eftir að eldurinn kom upp.
„Hvaðan kom eldurinn ef Halli kveikti ekki í sjálfur, né einhver annar? Getur það verið vindill eða ofhitnaði bíllinn? Þeir eru einfaldlega ekki búnir enn að átta sig á því og því er málið enn til rannsóknar.
Búið er að rannsaka lifrina í honum til að athuga hvort honum hafi verið byrlað í drykk á einhverjum stað því þá hefði verið hægt að draga viðkomandi til saka og hægt væri að kenna viðkomandi um að Halli hafi ekki vaknað við eldinn. En það fannst ekkert í lifrinni… annað en dass af rauðvíni hjá okkar manni enda vorum við í afmæli hjá góðum vini okkar um kvöldið og ekkert óeðlilegt við það.
Öryggismyndavélar voru skoðaðar, bæði sem eru alls staðar á húsinu okkar og í götunni okkar, og þar sést mjög greinilega að Halli kom einn heim seint um nóttina, lyklalaus og vildi sennilega ekki vekja okkur og hann sest inn í bíl, ræsir vélina, kemur sér fyrir í sætinu og leggur sig.
20 mínútum síðar fer hann að húsinu til að athuga hvort einhver sé vaknaður en allir eru sofandi svo hann sest aftur inn í bílinn og sofnar. Tæplega 2 klukkustundum seinna byrjar reykur að koma frá bílnum, svo eldur og síðan sprenging og þá vöknum við öll og martröðin hefst sem við erum enn í.“
Raunin sé svo að lögregla sé að standa vel að rannsókninni og er verið að kanna alla möguleika í málinu. Gallinn sé þó að þetta gerist allt mjög hægt.
Drífa hefur leitað til alls 6 lögmannsstofna eftir aðstoð, þar af fjórar á Spáni og tvær á Íslandi. Hún hefur sett sig í samband við ræðismenn, ráðuneyti og hefur þýðanda sér til halds og trausts. Samkvæmt nýjustu upplýsingum ætti hún að fá líkamsleifar Halla afhendar fljótlega, það hefur þó tafist vegna sumarfría.
Drífa segir að hún þurfi nú geðheilsu sinnar sem og vegna fjölskyldu sinnar að sætta sig við að þetta taki tíma. Þau séu að reyna að temja sér æðruleysi og taka þetta einn dag í einu.
Í ágúst hefði Halli orðið fimmtugur og ætlar Drífa að standa fyrir minningarathöfn/jarðarför á afmælisdegi hans. Halli hafi skilið eftir skýr skilaboð um hvernig hann sæi fyrir sér sína eigin jarðarför og ætlar Drífa af fylgja þeim eftir. Fyrirmæli hafi verið „Ekkert drama, bara hlátur, mikið af músík og gott rauðvín til að skála fyrir lífinu“