fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

Brynjar og Andri Snær elda grátt silfur saman – Gísli Marteinn stígur inn í leikinn

Rafn Ágúst Ragnarsson
Þriðjudaginn 26. júlí 2022 11:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andri Snær Magnason birti um daginn færslu í Facebook-hópnum Fjölmiðlanördum þar sem hann lýsti mikilli óánægju sinni á Staksteinum Morgunblaðsins sem kom út þann 22. júlí síðastliðinn. Hann fór hörðum orðum um skrif Páls Vilhjálmssonar þar sem hann viðrar skoðanir sínar á loftslagsmálunum en hann trúir því ekki að steðji hætta af loftslagsbreytingum af mannavöldum. Páll benti á orð veðurfræðingsins Magnúsar Jónssonar um að loftslagsváin væri ýkjusaga og sagði svo að aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsvandann væru pólitískar.

„Er þolinmæðin takmarkalaus á meðan heimurinn brennur?“

Andra fannst helst til lítið til orða Páls koma og fór ekki leynt með vanþóknun sína. Andri birti færslu í hópnum Fjölmiðlanördar og skrifaði þar: „Hvað lætur fagfólk yfir sig ganga sem vinnur á þessum fjölmiðli? Er boðlegt fyrir fagfólk að vinna undir svona stjórn? Er engin umræða innanhúss um að mæta ekki til vinnu og mótmæla þessu formlega? Er þolinmæðin takmarkalaus á meðan heimurinn brennur?“

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og fyrrverandi þingmaður, birti færslu í gærkvöldi og þar tjáði hann sína skoðun á þessum skrifum Andra Snæs.

„Í eðli sínu fasísk sjónarmið“

„Það getur vel verið að Andri Snær Magnason sé bara rithöfundur úti bæ. En rithöfundar úti í bæ eiga að vita að pólitískur aðstoðarmaður ráðherra er ekki embættismaður. Svo er ég varaþingmaður og hef sama rétt og aðrir stjórnmálamenn til að tjá mig.“

Brynjar sagði málflutning Andra Snæs vera þöggunarkröfu og slaufun og leiði í ljós fasísk sjónarmið Andra. „Ástæða þess að ég nefndi rithöfundinn úti bæ á nafn í síðustu færslu minni er sú að þessi þöggunarkrafa hans og slaufun í tengslum við Staksteinaskrif um loftslagsmál eru í eðli sínu fasísk sjónarmið.“

„Þessi hvatning og áeggjan rithöfundarins úti í bæ til þöggunar og slaufunar var og er mjög þekkt í fasískum ríkjum. Þar þola menn ekki rökræðu í frjálsu samfélagi heldur er ein skoðun rétt og oftar en ekki vísindaleg. Held að rithöfundurinn úti í bæ hljóti að átta sig á þessu.“

Andri svarar fyrir sig

Andri Snær var fljótur að svara fyrir sig og gaf lítið fyrir ummæli Brynjars.

Útgerðaraðall kaupir einn stærsta fjölmiðil landsins og setur yfir reynda blaðamenn ritstjóra sem tekur ítrekað undir samsæriskenndar jaðarskoðanir um að SÞ hafi handvalið vísindamenn sem trúa á manngert loftslag. Þessi sýn okkar helstu sérfræðinga hvað varðar súrnun sjávar, bráðnun jökla etc… rithöfundi úti í bæ blöskrar ófagmennskan og ruglið sem þar birtist og spyr: „,Hvað lætur fagfólk yfir sig ganga sem vinnur á þessum fjölmiðli? Er boðlegt fyrir fagfólk að vinna undir svona stjórn? Er engin umræða innanhúss um að mæta ekki til vinnu og mótmæla þessu formlega? Er þolinmæðin takmarkalaus á meðan heimurinn brennur?“ skrifaði Andri undir færslu Brynjars.

Andri Snær hélt áfram: „Þetta er ekki þöggunarkrafa, þetta er krafa um gagnrýna umræðu innanhúss. Þetta var spurning, ekki krafa, heldur spurning um þolinmæði fagmanna gagnvart samsæriskenndum jaðarskoðunum yfirmanns síns i mikilvægasta máli samtímans. Það verður til þess að aðstoðamaður dómsmálaráðherra sér fasískar ofsóknir.“

Andri gagnrýndi harkalega þá hugmynd að það sé í anda Francos, fyrrum fasísks einræðisherra Spánar, að „blaðamenn eigi ekki að nýta sér einhvers konar félagslega samstöðu eða faglegan vettvang til að tryggja fagmennsku og virðingu síns miðils.“

Andri lauk ummælum sínum á því taka fyrir þá hugmynd að skrif sín hafi verið þöggunarkrafa.

„Nei, það var engin þöggunarkrafa, bara mjög eðlilegt ákall um samstöðu fagfólks um að standa vörð um fagmennsku. Þetta er svo mikil sýra að ég trúi varla að ég eigi í svona orðaskiptum við aðstoðarmann dómsmálaráðherra á Íslandi.“

Svo virðist sem ummælum Andra undir færslu Brynjars hafi verið eytt á meðan þessi frétt var skrifuð.

Gísli Marteinn ýjar að hræsni Brynjars

Fjölmiðlamaðurinn Gísli Marteinn Baldursson lagði orð í belg og birti skjáskot af færslu Brynjars og ummælum Andra á Twitter-síðu sína. Þar tók hann undir með Andra og ýjaði að því að Brynjar væri hræsnari fyrir að ásaka Andra um fasísk sjónarmið þegar Brynjar „greiddi atkvæði gegn þungunarrofi kvenna, vildi vísa 300 manns úr landi í sumar, vill nýja innflytjendalöggjöf og valdefla lögregluna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“