Á morgun verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál gegn tvítugum manni sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps.
DV er með ákæru héraðssaksóknara í málinu undir höndum. Atvikið átti sér stað aðfaranótt föstudagsins 15. apríl síðastliðins, utandyra við skemmtistaðinn Prikið við Ingólfsstræti í Reykjavík. Maðurinn er sakaður um að hafa stungið annan ungan mann með hnífi vinstra megin í síðuna með þeim afleiðingum að brotaþolinn hlaut 5 cm langan og nokkuð djúpan skurð á vinstri síðu og gegnum þind, auk áverka á rifi.
Brotaþolinn gerir einkaréttarkröfu í málinu um skaðabætur að fjárhæð 2,1 milljón króna.
Sem fyrr segir er þingfesting í málinu á morgun, 27. júlí, og má búast við því að aðalmeðferð fyrir dómi verði einhvern tíma í haust.