Undanfarið hefur borið á harði gagnrýni í garð fasteignasala hér og landi og því fyrirkomulagi sem tíðkast við sölu fasteigna. Einkum hafa þar verið áberandi pistlar sem Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í hagfræði, hefur ritað þar sem hann sakar meðal annars fasteignasala um sjálftöku og græðgi.
Ingibjörg Þórðardóttir, eigandi fasteignasölunnar Híbýli og fyrrverandi formaður Félags fasteignasala, segir sérkennilegt að fasteignasalar sitji undir þessum rógburði en hún var gestur í Bítinu í morgun þar sem hún fór yfir málið.
Sjá einnig: Haukur Viðar sakar fasteignasala um fjárkúgun – „Starfa fyrst og fremst fyrir sjálfa sig“
Ingibjörg segir að fyrirkomulagið á Íslandi, þar sem fasteignasali gætir bæði hagsmuna seljenda og kaupenda, hafi reynst vel og sinni fasteignasalar þeirri hagsmunagæslu af heilindum. Ef taka ætti upp kerfi líkt og tíðkist víða erlendis, þar sem kaupendur og seljendur hafa sitt hvorn fasteignasalann með sér í viðskiptunum, geti kostnaður fljótt orðið afar mikill.
Trúir Ingibjörg að líklega sé þessi gagnrýni í garð fasteignasala að spretta upp núna í ljósi stöðunnar á markaðinum, en fasteignamarkaðurinn í dag sé seljendamarkaður þar sem eignir seljast hratt og jafnvel sé slegist um þær.
„Ég segi bara satt og rétt frá mínum bæjardyrum séð – ég skil ekki þennan vanda og að þetta sé orðið þannig að fasteignasalar séu orðnir persona non grata, þeir séu óheiðarlegir, þeir séu að vinna sér í hag af því að þeir geti fengið eitthvað örlítið meira í vasann,“ segir Ingibjörg og bætir við að það sé „sérkennilegt að liggja undir rógburði eins og hefur viðgengist og ég ætla bara að leyfa mér að segja það, frá aðila sem hefur verið að spreyta sig á markaði með ýmsum hætti en er ekki fasteignasali sjálfur. Hann hefur ekki til þess bær réttindi.“
Réttilega ætti að beina gagnrýninni að stjórnvöldum og þá helst þeim sveitarfélögum sem hafa ekki staðið að nægri uppbyggingu íbúða og innviða.
Haukur Viðar hefur meðal annars í gagnrýni sinni haldið því fram að fasteignasalar komi ekki með aukið traust inn í söluferlið og beri í raun enga ábyrgð þegar á hólminn er komið.
Ingibjörg segir þetta ekki rétt. Fasteignasölum beri að vera tryggðir og ef upp koma tilvik sem falli ekki undir slíkar tryggingar beri þeir persónulega ábyrgð.
Ekki getur heldur talist óvenjulegt að fasteignasali hafi samband við aðila sem hefur áhuga á að kaupa eign og bendi honum á að tilboð hans sé of lágt en hann geti boðið hærra.
Markaðurinn virki þannig að alveg eins og kaupandinn hefur rétt að kaupa eign fyrir það verð sem fæst fyrir hana á markaðinum hverju sinni – hafi seljandinn rétt á að fá sem best verð fyrir eign sína. Eins þar sem um gífurlega peninga er að ræða telur Ingibjörg mikilvægt að til verksins séu fengnir aðila með reynslu og þekkingu af því að selja fasteignir svo að „það sé aðeins betur vandað til verka heldur en ef þú værir að kaupa sjónvarpstæki.“
Vandamálið séu ekki fasteignasalar heldur skortur á eignum. Hér á landi hafi orðið fólksfjölgun og eins hafi fjölskyldusamsetningin breyst. Fleiri búi einir, fólk eigi færri börn og ólíkt því sem tíðkaðist í gamla daga þá búi að jafnaði bara ein fjölskylda í hverri íbúð.
Þétting byggðar í miðborginni og aðlægum póstnúmerum sé einnig vandamál þar sem um dýrar eignir sé að ræða þegar betur hefði farið að byggja hagkvæmari hús með fjölda íbúða á borð við Bakkana í Breiðholti sem Ingibjörg segir til fyrirmyndar hvað skipulagningu varðar.
Gefur hún lítið út fyrir þær viljayfirlýsingar sem nýskipaðar sveitarstjórnir hafa undirritað í kjölfar kosninga.
„Hvað heldur þú að það hafi oft verið gert að gefa út svona allskonar viljayfirlýsingar sem hafa svo dagað uppi í ljósi aðstæðna. Við vitum ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér.“
Nefnir Ingibjörg Reykjavík sem dæmi. Hægt sé að byggja íbúðir ofar í Úlfarársdal og eins sé fullt af ónýttum tækifærum á Kjalarnesi. Hins vegar láti borgin sér það í léttu rúmi liggja og einblíni frekar á svæðið undir Reykjavíkurflugvelli sem hart er deilt um. Segir hún að svo virðist sem borgin hugsi sem svo: „Það er bara þetta svæði ef þetta svæði færst ekki þá höldum við bara að okkur höndum“
„Þetta er eins og frekur krakki sem heimtar sleikjubrjóstsykur og ef hann fær hann ekki, hvað gerir hann? Hann fer að grenja. Og þetta er bara sama staðan. Borgaryfirvöld verða að hysja upp um sig og standa við stóru orðin sem þau lofuðu fyrir kosninga.“
Ingibjörg segir einnig gagnrýni á að leigumarkaðurinn sé ósanngjarn nokkuð ómaklega. Raunin sé sú að leiguverð hafi hækkað litið undanfarin ár á meðan húsnæðisverð hafi rokið upp og samhliða því sá kostnaður sem leigusalar beri.
Líklega muni taka nokkurn tíma að sjá breytingar á markaðinum. Bankar flýti sér hægar við að lækka vexti en að hækka þá. „Mér finnst sem einstakling, ef ég hugsa um sjálfa mig og mína af komendur, að bankarnir eigi að fitna eins og púkinn á fjósbitanum í þessari aðstöðu, en fjölskyldurnar þurfi að sauma að sér með mjög marga hluti varðandi þetta.“