Aðgerðir standa yfir á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar í flugvél þýska flugfélagsins Condor. Vélin var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum en þurfti að lenda hérlendis á fimmta tímanum í dag vegna sprengjuhótunar. Öll flugumferð um völlinn var stöðvuð á meðan.
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að einhver um borð hafi skrifað orðið BOMB á spegil á salerni í vélinni og hafi í kjölfarið verið ákveðið að lenda flugvélinni þegar hún var stödd í grennd við Grænland.
Aðgerðir standa enn yfir en 266 manns eru um borð í vélinni. Er unnið að því að koma fólki frá borði og ganga úr skugga um að enga sprengju sé að finna í flugvélinni.
Líklegt er að brottförum frá Leifsstöð síðar í kvöld seinki vegna atviksins.
Uppfært kl.20.03: Í tilkynningu frá lögregluyfirvöldum kemur fram að sprengjusérfræðingar sérsveitar ríkislögreglustjóra ásamt sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar hafa lokið við að sprengjuleita farþegarými vélarinnar. Nú stendur yfir leit í lest vélarinnar en leit er tímafrek en ekkert óeðlilegt hefur fundist.