Það var nóg um að gera hjá lögreglunni í nótt eins og venjulega. Í dagbók lögreglu kemur fram að nokkuð hafi verið um slagsmál, bæði í miðbænum og annars staðar. Skömmu fyrir miðnætti var til dæmis tilkynnt um slagsmál í miðbænum en þar var um að ræða tvo einstaklinga undir 18 ára aldri. Farið var með þá báða á lögreglustöðina þar sem rætt var við þá en síðar var heyrt í foreldrum þeirra og barnavernd.
Fram kemur í dagbókinni að einstaklingur hafi óskað eftir aðstoð lögreglunnar vegna líkamsárásar í miðbænum klukkan 01:18 en ekki var skráð neitt meira um það atvik. Á sama tíma var tilkynnt um slagsmál í Breiðholtinu.
Um klukkan 2 í nótt var svo tilkynnt um slagsmál fyrir utan skemmtistað í miðbænum, á svipuðum tíma var tilkynnt um slagsmál í 220 Hafnarfirði og síðar um nóttina var tilkynnt um önnur slagsmál í Hafnarfirðinum.
Nokkuð var um að bifreiðir væru stöðvaðar af lögreglunni, flestar vegna gruns um að ökumaðurinn væri að aka undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þá var ökumaður í 105 Reykjavík stöðvaður fyrir að aka á rúmlega tvöföldum hámarkshraða en ökumaðurinn sem um ræðir er aðeins 17 ára gamall og því tiltölulega nýkominn með bílprófið sitt.
Þessi ungi ökumaður ók bifreiðinni á 126 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði við bestu aðstæður var einungis 60 kílómetrar á klukkustund. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttingum sínum til bráðabirgða og voru foreldrum hans og barnavernd gert viðvart um málið.
Miðað við sektarreikni lögreglunnar má búast við því að þessi ungi ökumaður fái 180.000 króna sekt fyrir brotið. Þá ætti hann að fá þrjá punkta og vera sviptur ökuréttindum í þrjá mánuði.