Í dagbók lögreglu í gær var greint frá því að barn hafi fallið út um glugga á fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu. Fallhæðin var um 15 metrar og var barnið flutt á bráðamóttöku til aðhlynningar. Ekki var um alvarleg beinbrot að ræða en ákveðið var að athuga hvort það væri með einhver innvortis meiðsli.
Samkvæmt frétt Vísis frá því í dag er barnið sem féll í gær einungis eins og hálfs árs gamalt. Þá kemur einnig fram í fréttinni að slysið hafi átt sér stað í austurbæ Reykjavíkur. Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við Vísi að barnið hafi dottið út um glugga í íbúð á fjórðu hæð í blokk.
„Við erum núna bara að skoða það hvernig barnið kemst þangað, það var einhver opinn gluggi þarna á fjórðu hæðinni.“
Barnið liggur nú á spítala samkvæmt Jóhanni.