Ummæli Helga Magnúsar Gunnarssonar, vararíkissaksóknara, á Facebook-síðu sinni í gær hafi vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum. En embættismaðurinn fullyrti að hælisleitendur, sem sækja um alþjóðlega vernd hérlendis á grundvelli kynhneigðar sinnar, væru „auðvitað að ljúga“.
Ummælin lét Helgi Magnús falla við frétt um nýfallinn dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hefðu ranglega ekki tekið kynhneigð manns trúanlega, en stefnandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2019 sökum kynhneigðar.
Í umfjöllun um málið sagði Helgi Þorsteinsson Silva, lögmaður mannsins, að dómurinn væri að slá á puttana á stjórnvöldum varðandi framkvæmd þessara mála. „ Ég tel það alveg óboðlegt að framkvæmdin sé eins og hún er í dag, sem er einfaldlega þannig að stjórnvöld trúa ekki þeim sem segja stjórnvöldum hver kynhneigð þeirra er,“ sagði Helgi í umfjöllun Vísis um málið.
Stjórnvöld hefðu úrskurðað að maðurinn væri ekki samkynhneigður því að hann virtist gagnkynhneigður samkvæmt hegðun sinni á samfélagsmiðlum. Benti lögmaðurinn á að maðurinn væri frá landi þar sem lífshættulegt væri að opinbera samkynhneigð sína og því fráleitt að nota hegðunina á samfélagsmiðlum sem einhverskonar sönnun á kynhneigð mannsins.
Vararíkissaksóknarinn virðist þó vera sannfærður um að þetta hafi verið vel gert hjá stjórnvöldum. „Auðvitað ljúga þeir,“ segir hann í færslunni sem hefur vakið mikla athygli. „Flestir koma í von um meiri pening og betra líf. Hver lýgur sér ekki til bjargar.“
Þá kom Helgi Magnús með spurningu í lok færslunnar sem hefur hvað mest verið gagnrýnd ásamt fullyrðingunni um að hælisleitendur ljúgi. „Er einhver skortur á hommum á Íslandi?“ spyr embættismaðurinn.
Baráttukonan og lögfræðingurinn Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann er á meðal þeirra sem hafa furðað sig á færslu vararíkissaksóknarans. Í færslu sem Kolbrún birti á Twitter-síðu sinni sýnir hún ummæli Helga Magnúsar sem og skjáskot af annari grein siðareglna ákærenda.
Í siðareglunum kemur fram að ákærandur eigi að gæta þess í framkomu sinni og framgöngu að rýra ekki traust og trú almennings á hlutleysi ákæruvaldsins. „Ákærendur skulu haga störfum sínum og framkomu þannig að hlutleysi ákæruvaldsins verði ekki dregið í efa,“ segir í siðareglunum.
„Skil þetta bara eftir hér,“ segir Kolbrún Birna í færslunni.
Fleiri netverjar hafa gagnrýnt Helga Magnús harðlega fyrir ummælin. „Hinsegin fordómar bætast við langan lista af mannhatandi skoðunum sem eiga alls ekki heima hjá þessu embætti,“ segir til að mynda einn netverji og spyr svo hvenær sé komið nóg.
Þá bendir einn netverji vararíkissaksóknaranum á að það er eflaust góð ástæða fyrir því að hælisleitendur séu ekki að flagga hinseginleika sínum á samfélagsmiðlum. „Veit bara ef ég væri gay og byggi í landi þar sem fólk er bókstaflega drepið út af kynhneigð, þá myndi ég svo sannarlega ekki pósta því á samfélagsmiðla.“
Nokkrir netverjar hafa svo sagt að Helgi Magnús eigi að segja af sér eða það sem meira er, að honum eigi sjálfum að vera vísað úr landi. „Hann er alltaf að prófa hvað hann kemst upp með að segja. Hvernig væri ef þessum gaur væri bara sagt upp,“ segir til dæmis einn netverji. „Ég vil að þessi maður segi af sér þessu embætti fyrir kvöldmat. Það er lágmarkið,“ segir svo annar netverji.
„Er hægt að brottvísa þessum gaur úr landi? Það er nóg af leiðinlegum körlum hér á landi,“ segir svo enn annar.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Helgi veldur usla á samfélagsmiðlum. Í umfjöllun Stundarinnar árið 2019 var Helgi sakaður um að bera út kynþáttahyggjuboðskap.
Þá hefur hann verið gagnrýndur fyrir að deila hugleiðingum sínum um sjálfsákvörðunarrétt kvenna til þungunarrofs en hann lýsti sig andvígan þungunarrofi eftir tuttugustu viku meðgöngu.