Alla jafna má sjá krakka á rafskútum í Laugardalnum og umhverfi hans og er það ekkert til að kippa sér endilega upp við. Í gærkvöldi var þó fjöldi krakka í hverfinu búin að margfaldast vegna knattspyrnumótsins ReyCup og var þá fjöldi krakka á rafskútum einnig mun meiri en gengur og gerist. Ekki fara allir eftir reglunum þegar kemur að rafskútum og má oft sjá krakka vera 2 saman á hjóli, einnig jafnvel 3 eða 4 saman.
Valtýr Gauti Gunnarsson, íbúi í Laugardalnum, var einmitt vitni að mörgum krökkum á rafskútum í Laugardalnum í gærkvöldi en oft voru krakkarnir sem hann sá 2-4 saman á hjólunum. „Á venjulegum degi þá kemur það mér ekkert við,“ segir Valtýr í færslu sem hann birti í hverfishópnum á Facebook.
„En þegar þau fara of hratt og eitt þeir veldur því ad dóttir mín dettur af hjólinu sínu þá læt ég það mig varða.“
Valtýr segir að krakkarnir á hjólinu hafi verið í íþróttagöllum og því má ætla að þeir tengist ReyCup. „Það voru 2 stelpur haldandi á Domino’s pizzu sem ullu því að dóttir mín datt. Þær litu við og sáu hvað þær gerðu en héldu svo áfram þrátt fyrir að við báðum þær um að stoppa.“
Í samtali við DV segir Valtýr að stelpurnar hafi verið að fara mjög hratt miðað við aðstæður og að dóttur sinni, sem er 9 ára gömul, sé mikið brugðið. Sem betur fer er dóttir hans ekki mikið meidd. „Hún fékk bara smá skrámu á hnéð en henni er bara brugðið,“ segir hann.
„Það er bara pirrandi að þær ollu slysi þarna og héldu bara áfram, þær hafa kannski bara verið smeykar eða eitthvað, ég veit það ekki.“
Í færslunni sem Valtýr birti hvatti hann skipuleggjundur á ReyCup til að grípa inn í, segja krökkunum á mótinu að fara eftir lögum þegar kemur að rafskútunum og sýna börnum og gangandi vegfarendum í hverfinu aðgát.
Það er einmitt það sem stjórn ReyCup ætlar nú að gera. Gunnhildur Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri ReyCup, segir í samtali við DV að stjórn mótsins ætli að grípa til aðgerða í dag varðandi rafskúturnar.
„Eins og í fyrra þá erum við í góðu samstarfi við Hopp og við getum tekið til ákveðna ráðstafanna með þeim. Til dæmis er hægt að láta hægja á hjólunum svo þau komist ekki upp í sama hraða á þessu svæði, við stefnum á að grípa til þeirra ráða í dag sem og senda út yfirlýsingu til að biðja krakkana um að fara eftir öllum reglum,“ segir Gunnhildur.
Þá segir hún að það hafi ekki komið fleiri ábendingar um slys tengd rafskútum í gær.
Gunnhildur segir að lokum að knattspyrnumótið hafi farið vel af stað í gær. „Það er alveg frábært að sjá erlendu liðin komin aftur og erlendu dómarana, það er alltaf svona sérstakur bragur yfir dalnum þegar þetta fer af stað.“