Hún heitir Cepeda Segura Hilda Gertrudis og er 44 ára gömul kona frá Dómíníska lýðveldinu. Hilda þessi situr í gæsluvarðhaldi í Fangelsinu Hólmsheiði en hún hefur verið ákærð fyrir stórfellt fíkniefnabrot.
DV hefur ákæruna undir höndum. Í henni er konunni gefið að sök að hafa staðið að innflutningi á rúmlega 1,1, kíló af kókaíni hingað til lands þann 21. maí síðastliðinn. Hún kom í flugi hingað frá Barcelona. Efnið er sagt vera 82-84% að styrkleika sem samsvarar 92-94% af kókaínklóríði. Segir í ákæru héraðssaksóknara að efnin hafi verið ætluð til söludreifingar hér í hagnaðarskyni.
Efnin voru í tveimur pakkningum sem festar voru við læri Hildu innanklæða.
Þess er krafist að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Málið verður þingfest á föstudag fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Má búast við að réttað verði í því í haust.