Lögreglu barst í morgun tilkynning um vopnað rán í Reykjavík. Þar höfðu tveir aðilar heimtað fíkniefni af tveimur öðrum aðilum. Urðu þar átök sem enduðu með því að annar sá er átti að ræna hlaut stungusár á handlegg. Lögregla hefur handtekið árásaraðila og eru þeir vistaðir í fangageymslu vegna málsins. Hinn slasaði var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku til aðhlynningar.
Þetta kom fram í dagbók lögreglu. Þar kemur einnig fram að skömmu fyrir hádegi var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í Vesturbæ Reykjavíkur. Þar voru á ferðinni tveir aðilar í annarlegu ástandi og dró annar þeirra upp hníf þegar að þeim var komið. Húsráðendur náðu að yfirbuga manninn áður en lögregla kom á vettvang og gista nú báðar „boðflennurnar“, eins og það er orðað í tilkynningu lögreglu, í fangageymslu og verða yfirheyrðir þegar þeir verða skýrsluhæfir.
Lögreglu barst einnig tilkynning um sofandi aðila á stigagangi í fjölbýlishúsi. Brást lögregla við og vísaði viðkomandi út í sólskinið.
Tveir aðilar voru stöðvaðir í morgun við akstur undir áhrifum og reyndist annar þeirra hafa verið sviptur ökuréttindum.
Eldur kom upp í vinnuvél við Úlfarsfell og náði eldurinn að breiðast út í minnst eina bifreið. Ekki leit þetta vel út í fyrstu þar sem mikill eldur logaði og sprengingar urðu. Slökkvilið náði þó fljótlega að ráða niðurlögum eldsins og unnið er að rannsókn á eldsupptökum.
Uppfært: Upprunalega birtist fréttin með óheppilegri innsláttarvillu í fyrirsögn, en þar stóð vopnað ráð. Þetta hefur verið leiðrétt og biðst blaðamaður velvirðingar.