Myndband af lifandi pöddu sem kom úr samloku sem keypt var á veitingastað Subway í Skeifunni hefur verið í nokkurri dreifingu að undanförnu. Myndbandinu var deilt á samfélagsmiðlinum Snapchat en í því má sjá pödduna skríða um á Subway-umbúðunum við hlið samlokunnar.
„Nahhhh wtfffff,“ (sem þýða mætti sem „Nei, hvað í fjandanum“) var skrifað með myndbandinu ásamt tveimur tjáknum (e. emoji) af manni sem er grænn í framan og er við það að æla.
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan:
Vilhjálmur Sveinn Magnússon, rekstrarstjóri Subway á Íslandi, segi í samtali við DV að líklega hafi pabddan fundist í samloku sem keypt var á Subway í Skeifunni.
„Þetta er rétt, ég veit reyndar ekki nákvæmlega hvernig padda þetta er en þessi padda var líklega í kálinu okkar. Í svona tilvikum er reyndar mjög erfitt fyrir okkur að staðfesta hvaðan paddan kemur en ég sé ekki ástæðu til að rengja þennan viðskiptavin. Kálið okkar er samt nákvæmlega þrifið og fer í gegnum hreinsunarferli hjá okkar birgja. Það sem við gerðum var að við töluðum strax við okkar birgja og fórum yfir þetta mál með þeim til þess að þetta komi ekki fyrir aftur,“ segir Vilhjálmur en Subway kaupir allt sitt grænmeti frá Bönunum ehf.
Hann segir að Bananar ehf. séu þó með eitt nákvæmasta hreinsunarferli á landinu og því sé það óvenjulegt að svona sleppi í gegnum það. „Þeir eru með rosalega nákvæmt hreinsunarferli og þess vegna finnst mér ótrúlega skrýtið að þetta hafi komist í gegnum það. Þeir skera allt kálið fyrir okkur og hreinsa það, það fer í gegnum svona vindu og hreinsunarferli. Við fáum það svo allt þvegið til okkar og pakkað þannig við hreinsum kálið ekki neitt hjá okkur því það kemur hreinsað til okkar,“ segir hann.
„Þetta er mjög leiðinlegt mál, sérstaklega af því þetta fór alla leið til viðskiptavinar, það er mjög leiðinlegt. En viðskiptavinurinn sagði okkur strax frá þessu á staðnum þannig við gátum brugðist við þessu strax þar.“
Þá segir Vilhjálmur að eftir að þetta var tilkynnt hafi Subway farið yfir grænmetið alls staðar og engin önnur padda fundist. „Við höfum ekki fundið neitt annað, við fórum yfir þetta með okkar birgja, það hefur engin önnur ábending komið, við höfum ekki fundið neitt á neinum öðrum stað eða á staðnum í Skeifunni,“ segir hann.
„Það er mjög leiðinlegt að þetta gerist en þegar maður er að vinna með svona hráefni, kál, tómata, gúrkur, papriku, sem kemur allt beint úr jörðinni þá er rosalega erfitt að ná öllu 100% alltaf, þó svo að það séu rosalega margar og strangar reglur, þetta er náttúrulega alþjóðleg keðja. Það er rosalega erfitt þó svo að við, að mínu mati, stöndum okkur mjög vel enda þurfum við að uppfylla ákveðnar kröfur frá Subway.“
Ljóst er að þetta er ekki eitthvað sem kemur oft fyrir á Subway samkvæmt því sem Vilhjálmur segir. „Nei, þetta er afar sjaldgæft og nokkuð sem hefur ekki komið upp hjá okkur í mjög langan tíma,“ segir hann.
Að lokum segir Vilhjálmur að viðskiptavinir Subway þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessu. „Nei, nei, guð minn almáttugur, þetta er bara eitt atvik núna. Þetta er auðvitað mjög leiðinlegt en við erum búin að fara yfir þetta atvik og þetta er ekkert sem gerist dags daglega, vikulega eða mánaðarlega,“ segir hann.
„Ég hef ekki heyrt af neinu svona atviki í langan langan tíma, þess vegna var svo skrýtið að heyra af þessu því maður var eiginlega búinn að gleyma því að þetta gæti gerst af því maður var ekki búinn að frétta af þessu svo lengi. En þetta er hundleiðinlegt mál samt.“