Barnaverndarnefnd á Norðurlandi eystra hefur krafist þess að móðir verði svipt forsjá dóttur sinnar. Samkvæmt texta í úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra um málið fyrr í sumar hafði barnavernd fyrst afskipti af mæðgunum haustið 2018 vegna vímuefnaneyslu dótturinnar. Hefur stúlkan á tímabilum verið vistuð á heimilum á vegum barnaverndar.
Konan krefst þess að dómkvaddur matsmaður verið fenginn til að leggja mat á forsjárhæfni hennar. Á þetta vill barnaverndarnefnd ekki fallast og féllst héraðsdómur á kröfur barnaverndarnefndar í málinu. Segir að flýta þurfi málinu eins og hægt er og ekki sé hægt að leyfa gagnaöflun sem ekki sé nauðsynleg og tefji málið.
Nú þegar liggja fyrir matsgerðir sálfræðinga sem segja forsjárhæfni móðurinnar mjög skerta. Um þetta segir meðal annars í texta héraðsdóms:
„Fyrir liggur nýtt mat á forsjárhæfni stefndu, einnig unnið af D sálfræðingi, dagsett 19. febrúar 2022. Eru niðurstöður þess meðal annars að stúlkan hafi áfram orðið fyrir vanrækslu, ofbeldi og áföllum. Grunur sé um fíkniefnaneyslu stefndu og hún hafi ekki verndað stúlkuna fyrir neyslu og ofbeldi á heimili sínu. Stúlkan sé með áfallaeinkenni og mögulega varanlegan tengslaskaða vegna uppeldisaðstæðna sinna. Móðir hafi fengið víðtækan langtímastuðning frá félagsþjónustu, barnavernd og heilbrigðiskerfinu. Úrræðin hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Bæði stefnda og stúlkan virðist í mun verri málum í dag en þegar fyrra mat var gert. Sálfræðingurinn hafi áhyggjur ef barnið verði sett aftur í umsjá móður. Það sé hans mat að stefnda hafi ekki nauðsynlega eða nægjanlega hæfni til að fara með forsjá dóttur sinnar. Hann mælir því með varanlegri vistun stúlkunnar utan heimilis til 18 ára aldurs, til að tryggja öryggi hennar og velferð.“
Móðirin byggði kröfu sína um að fenginn yrði dómkvaddur matsmaður á því að gagna barnaverndar hefði verið aflað með einhliða hætti og jafnræði væri ekki tryggt. Sem fyrr segir féllst héraðsdómur ekki á þessar röksemdir og Landsréttur hefur nú (þann 19. júlí) staðfest úrskurð héraðdóms. Mun dómkvaddur matsmaður ekki verið kallaður fyrir til að leggja mat á forsjárhæfni móðurinnar. Málarekstur barnaverndarnefndar gegn móðurinni heldur áfram.