Stórmeistarinn Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák, ætlar ekki að verja heimsmeistaratitil sinn í næsta einvígi um nafnbótina. Í hlaðvarpsviðtali staðfestir Carlsen þessi tíðindi og segir einfaldlega að hann finni ekki neina hvatningu né drifkraft til þess að tefla um titilinn.
Carlsen hefur gefið það í skyn áður að hann hyggist ekki verja titil sinn. Á dögunum lauk áskorendamóti í Madrid þar sem átta bestu skákmenn heims kepptu um réttinn til að skora á Norðmanninn í einvígi um titilinn. Sigurvegarinn var Rússinn Ian Nepomniachtchi en hann laut í lægra haldi gegn Carlsen síðasta heimsmeistaraeinvígi með sannfærandi hætti.
Talið er að næsta heimsmeistaraeinvígi verði milli Nepomniachtchi og Kínverjans Ding Liren sem lenti í öðru sæti á áskorendamótinu.
Carlsen hafði gefið það í skyn um nokkurt skeið að hann myndi mögulega taka þessa ákvörðun. Fyrir síðasta áskorendamót hafði hann ýjað að því að hann hefði aðeins áhuga á því að verja titil sinn gegn íranska undrabarninu Alireza Firouzja, sem margir töldu að yrði arftaki hans.
Firouzja átti hins vegar ekki góðu gengi að fagna í áskorendamótinu en hann lenti þar í 6. sæti af átta keppendum, þremur og hálfum vinningi á eftir Rússanum Nepomniachtchi.