Landsréttur hefur staðfest ákvörðun héraðsdóms um að verða við kröfu ríkissaksóknara þess efnis að maður sem grunaður er um stórfelld fjársvik í Austurríki verði framseldur þangað á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar.
Maðurinn mótmælti ákvörðuninni og sagði hana vera mannréttindabrot. Auk þess viðhafði hann þá málsvörn að áður hefði önnur stjórnvaldsákvörðun verið tekin um örlög hans en það átti að senda hann til Þýskalands, þar sem hann er ekki eftirlýstur, eftir að hann hafði afplánað dóm á Íslandi. Sagði hann þá ákvörðun eiga að standa.
Hvorki héraðsdómur né Landsréttur tóku mark á þessum röksemdum og verður maðurinn sendur í fangið á austurrískum lögregluyfirvöldum á næstunni.
Meint brot mannsins í Austurríki eru stórfelld fjársvik þar sem hann er sagður hafa blekkt fólk til að leggja háar fjárhæðir inn á bankareikninga í hans eigu. Um þetta segir svo í texta úrskurðar héraðsdóms:
„Í handtökuskipuninni er óskað handtöku og afhendingar varnaraðila, sem er austurrískur ríkisborgari, til meðferðar á sakamáli í Austurríki. Varnaraðili er grunaður um aðild að ítrekuðum fjársvikum og tilraunum til fjársvika auk peningaþvættis, sbr. 146., 147., 148. og 165. gr. austurrískra hegningarlaga , með því að hafa, á nánar tilgreindum tíma og stað, í auðgunarskyni og í félagi við óþekkta aðila, blekkt og reynt að blekkja nafngreinda sem og óþekkta brotaþola til að millifæra fjárhæðir inn á bankareikning í eigu varnaraðila, á bilinu frá 5.000 til 300.000 evrur, og þannig haft af þeim fjármuni. Aðild varnaraðila hafi meðal annars lotið að því að villa á sér heimildir í blekkingarskyni og að útvega bankareikninga í eigin nafni hjá ýmsum bönkum til að móttaka framangeindar millifærslur og millifæra fjár munina áfram á mismunandi bankareikninga.
Þá sé varnaraðili einnig grunaður um aðild að peningaþvætti með því að hafa á tímabilinu frá 31. júlí 2020 til 24. apríl 2021 leynt ávinningi af refsiverðu broti, sem hafi átt uppruna í Tyrklandi, með því að hafa í félagi við frænda sinn Y , staðið að millifærslu á um það bil 18.635 evrum inn á bankareikninga. Um sé að ræða brot sem samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum kann að varða allt að fimm 2 ára fangelsi vegna ætlaðra fjársvika og þriggja ára fangelsi vegna ætlaðs peningaþvættis samkvæmt austurrískum hegningarlögum. Til grundvallar hinni evrópsku handtökuskipun hafi innlend handtökuskipun verið gefin út af embætti saksóknara í Klagenfurt 30. júní 2021 og verið samþykkt af dómara. Meðfylgjandi hinni evrópsku handtökuskipun hafi verið úrskurður dómara við héraðsdómstólinn í Klagenfurt frá 5. júlí 2021, þar sem fram komi að hin evrópska handtökuskipun fullnægi skilyrðum og sé samþykkt af dóminum.“