Endursmitum af völdum Covid-19 hefur fjölgað á Íslandi. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu sem birt var á vef Landlæknis í dag. „Helsti óvissuþátturinn í dag um Covid-19 faraldurinn snýr að því hversu vel og lengi ónæmi varir eftir sýkingu og/eða bólusetningu,“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni vísað í skýrslu frá Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (EDCD) frá 18. júlí síðastliðnum. Í skýrslunni kemur fram að þrátt fyrir að þriðji skammtur bólusetningar virki vel gegn alvarlegum veikindum af völdum Covid-19 þá dvíni verndin á fyrstu þremur mánuðunum eftir bólusetninguna.
Þá kemur fram að verndin sé misgóð eftir afbrigðum veirunnar og að verndin sé til að mynda minni gegn ómícron afbrigðiunu en öðrum afbrigðum. „Fjórði bólusetningarskammtur bætir hins vegar verndina til muna en ekki er komin nægileg reynsla enn sem komið er til að segja hversu lengi hún varir,“ segir í tilkynningunni frá Landlækni.
„Sóttvarnalæknir fylgist einnig með hversu vel og lengi vernd eftir fyrstu sýkingu af völdum Covid-19 varir. Á Íslandi hafa 200.397 Covid-19 smit greinst opinberlega frá upphafi faraldursins og þar af hafa 5.116 greinst tvívegis og 19 þrisvar. Endursmit eru því í heild 2.6% af öllum smitum en reikna má með að hlutfallið sé hærra þvi ekki fara allir sem greinast með endursmit til dæmis á heimaprófum í opinber próf.“
Þegar endursmitin eru skoðuð nánar þá kemur í ljós að af þeim 30.487 sem greindust í fyrsta sinn á árunum 2020 og 2021 þá endursýktust 4.026 á árinu 2022 eftir að ómícron bylgjan hófst eða 13,2%. Af þeim 169.069 sem smituðst í fyrsta sinn á árinu 2022 þá hefur 841 endursýkst (0,5%). Hafa ber í huga að alþjóðleg skilgreining á endursmiti er nýtt smit sem greinist 60 dögum eða síðar eftir fyrra smit.
„Þannig er ljóst að hættan á endursmiti er háð tíma frá fyrra smiti sem endurspeglar dvínandi vernd með tímanum. Einnig virðast ný afbrigði veirunnar eiga auðveldara með að komast undan ónæmi af völdum fyrri afbrigða. Endursmitum hefur fjölgað verulega síðustu tvo mánuði og hafa síðustu vikurnar verið um 20% af daglegum fjölda smita. Fjölgunin tengist aukningu á BA.5 afbrigði kórónaveirunnar en þetta afbrigði veldur nú um 80% allra smita hér á landi. Erlendar rannsóknir hafa jafnframt sýnt að BA.5 afbrigðið sleppur meira en önnur afbrigði undan ónæmi af völdum fyrri smita.“
Að lokum segir í tilkynningunni að næstu vikur og mánuðir muni skera úr um hversu algeng endursmit af völdum nýrra afbrigða veirunnar verða. „Sú vitneskja mun vega þungt í ákvarðanatökum um endurbólusetningar næsta haust/vetur.“