Á ellefta tímanum í gær mældist hraði bifreiðar, sem var ekið eftir Reykjanesbraut í Hafnarfirði, 182 km/klst en leyfður hámarkshraði er 80 km/klst. Akstur ökumanns var að sjálfsögðu stöðvaður og hann kærður. Hann viðurkenndi að hafa ekið svona hratt og taldi sig raunar hafa ekið á tæplega 200 km/klst. Hann sagðist hafa verið of seinn í vinnu og hafi því ekið svona hratt. Hann var færður á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum.
Fimm ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn þeirra reyndist vera sviptur ökuréttindum.
Í austurhluta borgarinnar var maður stöðvaður þegar hann reyndi að stela tveimur samlokum úr verslun á öðrum tímanum í nótt. Hann brást illa við afskiptum öryggisvarðar og sló hann í andlitið.