fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Fréttir

Nágrannaerjur á Frakkastíg: „Barbarísk“ meðferð á 100 ára gömlu tré – „Það er verið að eyðileggja heimili okkar“

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 19. júlí 2022 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um þessar mundir standa yfir framkvæmdir á Frakkastíg 9, friðuðu húsi í miðbæ Reykjavíkur. Íbúar sem búa í bakhúsi á Laugaveginum við Frakkastíg 9 hafa mótmælt framkvæmdunum vegna rasks á lóðinni og skorts á leyfum. Hluti af framkvæmdunum fór fyrir hæstarétt þar sem byggingaraðilinn tapaði en framkvæmdirnar hafa engu að síður haldið áfram með tilheyrandi ósætti nágrannanna.

Þórunn Magnea Magnúsdóttir, leikkona og ljóðskáld, er ein þeirra sem býr í bakhúsinu á Laugaveginum. Í samtali við DV lýsir hún því hvernig málin standa. „Það var búið að samþykkja svona litla viðbyggingu við húsið fyrir löngu síðan, svo var henni bara breytt og þessi nýja tillaga var samþykkt þegjandi og hljóðalaust, hún fór aldrei í neitt umhverfismat eða neitt,“ segir hún.

Svona átti viðbyggingin upphaflega að líta út.

Þessi litla viðbygging varð svo mun stærri, í óþökk íbúanna í bakhúsinu á Laugaveginum. „Þetta var kjallari og ein hæð, nú á þetta að verða að tveimur hæðum og það er komið leyfi fyrir veitingastað fyrir 50 manns sem má vera opinn til 3 á næturnar um helgar,“ segir Þórunn Magnea.

Svona á viðbyggingin svo núna að líta út.

Lofaði að passa trén sem gróðursett voru fyrir yfir 100 árum síðan

Það kom Þórunni Magneu að óvörum þegar framkvæmdir byrjuðu svo í garðinum sem skilur að Frakkastíg 9 og bakhúsið sem hún býr í, ekki síst vegna þess hve illa framkvæmdaraðilarnir fóru með 100 ára gamalt tré.

„Þegar ég kem heim er búið að ráðast á eitt tréð með skóflu, brjóta stóra grein af því. Ég er ekkert á móti því að það yrði tekið af trénu, það er alveg sjálfsagður hlutur en það er ekki sama hvernig það er gert. Þú getur sagað greinina af trénu og það er ekkert mál, en að ráðast á lifandi tré með jarðýtuskóflu, mér finnst það bara barbarískt,“ segir hún.

Trén sem um ræðir eru Magneu mun kær og af góðri ástæðu. „Þessi tré eru mér mjög kær. Ég er búin að búa hér í 16 ár og þegar ég flutti hingað kom maður á níræðisaldri inn í garðinn til mín og sagðist vera feginn að ég væri flutt inn því áður var þetta gistiheimili,“ segir hún.

„Hann sagði: „Ég er svo feginn að þú ert flutt hingað því mig langar að biðja þig um að passa trén hennar mömmu. Mamma mín gróðursetti þessi tré þegar við bræðurnir fæddust.“ Ég sagði að það væri alveg sjálfsagt og að ég myndi gera það með gleði, þess vegna eru þessi tré mér svona mjög kær.“

„Þú veist að það er ekki komið neitt byggingarleyfi“

DV ræddi einnig við Þór Ludwig Stiefel, annan íbúa í bakhúsinu, vegna málsins en hann hefur verið í fararbroddi fyrir hönd hússins þegar kemur að baráttunni gegn þessum framkvæmdum. Í samtali við blaðamann segir Þór að fljótlega eftir síðustu áramót hafi hann og hinir íbúar hússins frétt af því að fyrirhugað væri verið að fara í framkvæmdir á Frakkastíg 9.

„Þetta er eitthvað sem við heyrum út undan okkur og svo byrja jarðvegsframkvæmdir í mars. Við förum bara að leita okkur gagna, sjáum að það var búið að gefa út byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið og að það var síðan kært því það var verið að hindra aðgengi í gegnum lóðina,“ segir Þór.

Þessi kæra fór fyrir bæði héraðsdóm og hæstarétt árið 2015 en málið snérist um bílastæði, vöru- og sorpgeymslu við Laugaveg 47. Til þess að komast að svæðinu þurfti að fara í gegnum lóðina sem Frakkastígur 9 stendur á. Héraðsdómur dæmdi í janúar árið 2015 að eigendur Laugavegs 47 ættu rétt á því að fara um lóðina til að komast að svæðinu þar sem áratuga löng hefð var fyrir því auk þess sem ekki var unnt að komast að svæðinu með öðrum hætti. Hæstiréttur staðfesti svo þann dóm um mánuði síðar.

„Við kærum þetta til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og byggingarleyfið er í kjölfarið fellt úr gildi. Síðan er bara haldið áfram að byggja eins og ekkert hafi í skorist, sama hvort við tölum við byggingarfulltrúann eða byggingaraðilann á svæðinu þá er ekkert gert í málinu. Síðan ætlum við að kæra þetta aftur en þá getum við ekki gert það því það er ekki búið að gefa út nýtt byggingarleyfi.“

Þór ræddi við byggingaraðilann í gær og spurði hvort hann vissi að það væri ekki komið nýtt byggingarleyfi. Þór tók samtalið upp á myndband sem sjá má hér fyrir neðan. „Þú veist að það er ekki komið neitt byggingarleyfi,“ segir Þór við byggingaraðilann sem svarar þá eftirfarandi: „Þér kemur það bara ekkert við hvað ég veit og ég veit ekki.“

video
play-sharp-fill

Orð byggingarfulltrúa stangast á við orð þjónustufulltrúa

Í gögnum sem DV hefur undir höndum má sjá að íbúar bakhússins á Laugaveginum hafa ekki fengið gott viðmót frá Reykjavíkurborg vegna málsins. Erfitt var að fá svör en þau bárust að lokum frá skrifstofu borgarstjóra og byggingarfulltrúa hjá Reykjavíkurborg. Í þeim svörum kemur fram að í raun hafi nýtt byggingarleyfi verið samþykkt þann 5. júlí síðastliðinn.

Fyrir síðustu helgi ákvað Þór að skrifa póst til byggingarfulltrúa og biðja um afrit af nýja byggingarleyfinu og viðeigandi teikningar þar sem hann fann þær ekki á teikningavef borgarinnar. Hann fékk þó ekkert svar og brá þá á það ráð að mæta á skrifstofu Reykjavíkurborgar í Borgartúni í gær til að biðja um byggingarleyfið og teikningarnar.

„Eftir að þjónustufulltrúi í borgartúninu er búin að leita út um allt að byggingarleyfi útgefnu 5. júlí kemst hún að þeirri niðurstöðu að EKKI er búið að gefa út nýtt byggingarleyfi!“ segir Þór.

Þór segir vinnubrögð byggingarfulltrúa borgarinnar vera „vægast sagt furðuleg“ og „ófagleg“. „Best sést það á því að gefið var út byggingarleyfi sem stangaðist á við hæstaréttardóm sem síðan er dregið til baka. En einnig á því að þar halda menn því fram að búið sé að gefa út byggingarleyfi sem er ekki raunin,“ segir hann og spyr hvort það hafi vísvitandi verið að halda fram röngu máli.

„Svo er það að þar sem ekki er búið að gefa út byggingarleyfi, getum við ekki kært til úrskurðarnefndarinnar – er það gert viljandi? Og á meðan heldur vinna við viðbygginguna áfram eins og ekkert hafi í skorist.“

„Það er verið að eyðileggja heimili okkar“

Íbúar bakhússins höfðu áhyggjur af því að verðmætin sem falin eru í þeirra fasteignum lækki vegna framkvæmdanna. Ákveðið var því að hafa samband við fasteignasala til að athuga hvort svo sé. „Við höfum spurt fasteignasala hvort þetta muni hafa áhrif á verðgildi eigna okkar og svaraði hún því játandi,“ segir Þór.

„Það er verið að skyggja á okkur, þrengja að okkur, valda verulegu ónæði með mikilli stækkun veitingastaðar sem má hafa opið til kl 3 um helgar á nóttunni og minnka notagildi lóðar okkar.“

Þór segist ekki upplifa það að borgaryfirvöld séu að vinna hlutlaust í málinu. „Við getum með engu móti séð að verið sé að verja hagsmuni okkar sem almennra borgarbúa. Við fáum ekki séð að lagt sé á það áhersla að vinna í samræmi við lög og reglur, hvað þá í sátt og samráði við nágranna byggingaraðila,“ segir hann.

„Við sendum bréf til Skipulags- og samgönguráðs (kjörnir fulltrúar sem fara með skipulagsmál) þann 27. apríl – ekkert svar. Ég sendi á umboðsmann borgarbúa í síðustu viku póst um málið – ekkert svar.“

Að lokum segir Þór að svona vinnubrögð eigi ekki að líðast og að málið snerti öll sem búa í Reykjavík. „Fyrir mér snýst þetta um íbúalýðræði og rétt fasteignaeiganda að hafa áhrif á hvað gerist í næsta nágrenni, sérstaklega þegar framkvæmdir kalla á rýrnun verðgildis fasteigna, truflun, ónæði og skert notagildi lóða,“ segir hann.

„Þetta er búið að valda okkur verulegu hugarangri og angist.“

Þá bendir Þór á að Þórunn Magnea sé að nálgast áttrætt og að hún hafi búið ánægð í húsinu í á annan áratug en að nú sé hún að gefast upp á þessu öllu saman. „Þér að segja gildir það sama um mig – það er verið að eyðileggja heimili okkar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sauð upp úr í Mosfellsbæ: Réðst á barn sem var með læti á veitingastað

Sauð upp úr í Mosfellsbæ: Réðst á barn sem var með læti á veitingastað
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Seldi íbúð en þarf að endurgreiða hluta söluverðsins vegna galla

Seldi íbúð en þarf að endurgreiða hluta söluverðsins vegna galla
Fréttir
Í gær

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Í gær

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn
Hide picture