Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í viðtali við Fréttavaktina á Hringbraut í kvöld að hlutfall endursmita í greindum Covid-smitum dagsdaglega færi stundum upp í 20%. Segir hann endursmit langalgengust hjá þeim sem smituðust fyrst af Covid árið 2020 eða 2021.
Þórólfur sagði að Covid væri engan veginn búið og væri að valda nokkrum usla á sjúkrastofnunum. Um 30 sjúklingar væru í dag inniliggjandi á Landspítalanum með Covid eða vegna Covid. Tveir væru í gjörgæslu. Fólk væri einnig að leggjast inn á aðrar sjúkrastofnanir vítt og breitt um landið vegna veirunnar.
Þórólfur segir að BA.5 undirafbrigði Omikron-afbrigðisins væri miklu meira smitandi en öll önnur afbrigði sem hefðu komið fram.
Þórólfur segir erfitt að segja til um hvort reglulegar bólusetningar gegn veirunni verði í framtíðinni en flest ríki hugi að því að bjóða fólki, 60 ára og eldri, upp á bólusetningu í haust.
Þórólfur segir að nýju afbrigðin víki sér frekar undan verndinni af bólusetningum og sýkingum en eldri afbrigði veirunnar. Útbreiddar bólusetningar og útbreidd smit í samfélaginu séu samt að gera mikið gagn.