Í umfjöllun CBC um málið kemur fram að ljóst sé að það sé eðlilegt að fólk smitist oftar en einu sinni af veirunni. Það þýði um leið að hugmyndir um að smit tryggi ónæmi gegn veirunni séu foknar út í veður og vind.
Miðillinn bendir á að vísindamenn segi að fyrir heilbrigða fullorðna einstaklinga, þar á meðal þá sem hafa náð sér í auka vernd með bólusetningu, þá eigi veikindi af völdum COVID-19 að verða auðveldari viðureignar eftir því sem fólk smitast oftar. Ónæmiskerfið læri af fyrri smitum og sé því betur í stakk búið til að takast á við smit.
Dr Allison McGeer, prófessor í smitsjúkdómalækningu við University of Toronto, sagði að líklega sé fyrsta smitið það versta. Eftir því sem smitum fjölgi, fái fólk betri vörn.
Hún sagði einnig að kórónuveiran hegði sér í sjálfu sér ekki öðruvísi en þær veirur sem hafa herjað á okkur áður. Það séum við sem höfum hegðað okkur öðruvísi og gefið henni færi á að smita okkur aftur og aftur, nú þegar vel á þriðja ár er liðið frá upphafi heimsfaraldursins. Þetta höfum við gert með því að halda okkur heima og stunda félagsforðun.
Hún sagði að þetta hefði gerst mun fyrr ef við hefðum ekki stundað félagsforðun og haldið okkur heima mánuðum og árum saman.