Segja má að upphaf nýjustu #metoo-bylgju hafi verið ásakanir á hendur fjölmiðlamanninum Sölva Tryggvasyni. Ein af þeim sögusögnum sem gekk á samfélagsmiðlum var að þjóðþekktur einstaklingur hefði keypt sér þjónustu vændiskonu og síðan verið handtekinn fyrir að ganga í skrokk á henni. Atvikið átti að hafa átt sér stað um miðjan marsmánuð í fyrra og var ýjað af því á samfélagsmiðlum að sá aðili væri Sölvi Tryggvason. Voru fjölmiðlar meðal annars sakaðir um að þagga málið niður.
Að endingu varð samfélagsmiðlastormurinn til þess að Sölvi steig fram í eigin hlaðvarpsþætti og tjáði sig um málið í í fullkominni geðshræringu eins og frægt varð.
Í umfjöllun Mannlífs í morgun kemur fram að málið hafi verið á misskilningi byggt. Segist miðillinn hafa fengið það staðfest að glæpurinn hafi sannarlega átt sér stað á þessum tíma en hinn brotlegi hafi verið annar maður. Segir í umfjöllun Mannlífs að „Metoo-bylgjan sem hófst með sögusögnunum um fjölmiðlamanninn og sú bylgja stendur enn yfir, hófst því á röngum sakargiftum.“
Kemur fram í umfjölluninni að gerandinn, sem ekki sé þjóðþekktur, hafi játað sök og bíði dóms í málinu.
„Þessi árás átti sér vissulega stað. Sölvi kom henni bara engu nálægt. Tímasetningin passar og sjónvarvottar hlúðu að konunni. Viðkomandi var handtekinn á vettvangi og úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur. Eftir því sem ég best veit hefur hann gengist við brotum sínum. Ég er bundinn trúnaði, en mér fannst hrikalegt að fylgjast með atburðarrásinni í fjölmiðlum,” segir ónafngreindur lögmaður í umfjöllum Mannlífs.
Enn fremur kemur fram að á sama tíma hafi Sölvi sjálfur hringt á lögreglu vegna hótana fyrrum ástkonu í kjölfar sambandsslita.