Skemmdarverk hafa verið unnin á sameign á Stúdentagörðunum við Suðurgötu að undanförnu. Skemmdarvargurinn hefur meðal annars sett grjót í þvottavél með þeim afleiðingum að hún skemmdist. Þá hefur hann hent blautum þvotti íbúa á gólfið auk þess sem lyfta hússins var fyllt af húsgögnum.
Arnar Kjartansson, fyrrum íbúi á Stúdentagörðunum við Suðurgötu, vakti athygli á skemmdarverkunum á Twitter-síðu sinni í gær. Í röð færslna segir Arnar frá því sem skemmdarvargurinn hefur gert og birtir myndir af afleiðingunum.
Bjó á Suðurgötunni í Stúdentagörðunum. Er enn í fb grúppunni og það er allt í steik þarna. Það er eh fáviti sem er að leika sér að því að eyðileggja fyrir öðrum og sameignir byggingarinnar. 1/?
— Arnar Liberalmálaráðherra (@arnar111) July 17, 2022
„Fyrst var þetta frekar saklaust en samt mjög illa gert. Tekið var húsgögn sem voru frammi á 3.hæðinni og staflað í lyftuna yfir nóttina svo að þeir sem þurftu að komast í vinnu daginn eftir þurftu að nota stigann,“ segir Arnar á Twitter.
Það sem gerðist í kjölfarið kom Arnari svo á óvart. „Ég ætlaði varla að trúa því sem að kom næst. Aðilinn tók risastórt grjót, setti í eina af fjórum sameignarþvottavélina og setti hana af stað. Hún er núna ónýt,“ segir hann.
„Aðilinn hætti ekki þar, hann htók allskyns heimilisáhöld og dagblöð, setti í aðra þvottavél með næstum heilum dúnk af þvottaefni nokkrum dögum seinna og stíflaði hana. Það er nú beðið eftir viðgerðum og hvort hún sé í lagi.“
DV ræddi við íbúa á Stúdentagörðunum á Suðurgötunni sem vildi ekki láta nafns síns getið en íbúinn segir að skemmdarvargurinn hafi aftur látið finna fyrir sér í nótt. „Hann lét aftur til skarar skríða í nótt. Hann tók aðra þvottavél og braut hurðina af henni. Þetta er út í hött,“ segir íbúinn í samtali við blaðamann.
Þá gagnrýnir íbúinn harðlega viðbrögð Félagsstofnun Stúdenta, sem sér um Stúdentagarðanna, en að hans sögn hefur lítið verið gert í málinu þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar íbúa. Í dag hafa bæði Fréttablaðið og Vísir vakið athygli á málinu og í kjölfarið hefur Félagsstofnun Stúdenta sagt að það verði eitthvað gert í því.
„Þetta er eiginlega bara skítafélag,“ segir íbúinn sem veltir því fyrir sér hvað hefði gerst ef málið hefði ekki vakið athygli utan Stúdentagarðanna. „Við höfðum samband við þá, báðum um myndavélar og þau sögðu að það „væri verið að vinna í þessu“ en ekkert gerðist. Svo bara klukkutíma eftir að fréttin kom út þá sögðust þeir ætla að setja upp myndavélar.“