Tomasz Þór Veruson, sem fyrr á þessu ári gekkst við því að hafa beitt tvær konur ofbeldi, hefur nú birt langa grein á Vísir.is þar sem hann gengst við hluta af ásökunum sem á hann hafa verið bornar en hafnar með öllu alvarlegustu ásökununum.
Mál Tomaszar komst í hámæli er pólfarinn Vilborg Arna Gissurardóttir greindi frá ofbeldi af hans hendi í Facebookhópnum Fjallastelpur. Önnur kona steig einnig fram og sakaði Tomasz um ofbeldi. Hann birti yfirlýsingu skömmu síðar þar sem hann gekkst við þessum ásökunum og sagðist ekki eiga sér neinar málsbætur. Þar sagði meðal annars:
„Á þessum tíma var ég af ýmsum ástæðum á vondum stað andlega sem rekja má til áfalla í æsku. Það afsakar þó á engan hátt framkomu mína í garð þeirra sem lýst hafa vanlíðan sinni í erfiðu sambandi við mig. Á því tek ég fulla ábyrgð. Ég lét vanlíðan mína bitna á öðrum í stað þess að leita mér aðstoðar.“
Í grein sinni á Vísir.is í dag segist hann aðeins vera sekur um hluta af því sem á hann er borið. Hann segist hafa beitt andlegu ofbeldi í samböndum sínum sem hafi birst í framhjáhaldi hans og viðbrögðum hans við því. Hann sver af sér ásakanir um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi. Tomasz skrifar:
„Til að taka það strax fram hef ég nú þegar gengist við því að hafa beitt andlegu ofbeldi í báðum þessum samböndum. Á þessum tíma glímdi ég við andleg vandamál tengd áföllum í æsku. Það skýrir að verulegu leyti viðbrögð mín við erfiðum aðstæðum en það afsakar þó á engan hátt framkomu mína. Ég bað þessar fyrrverandi kærustur mínar afsökunar bæði áður og eftir að samböndum og öllum samskiptum okkar lauk fyrir þremur árum síðan og hóf þá sjálfur að vinna í mínum málum með aðstoð fagaðila. Án þess að viðurkenna fyrir sjálfum mér að ég hafi gert rangt í samskiptum mínum við þær gæti vinnan ekki hafist.
En hverju var ég að biðjast afsökunar á? Ég skilgreindi framhjáhald og óheiðarlega framkomu mína í garð ástvina sem andlegt ofbeldi og gerðist sekur um það í báðum samböndum. Ég baðst afsökunar á því. Ég baðst ekki afsökunar á líkamlegu ofbeldi, kynferðisofbeldi eða kúgunartilburðum enda er ég ekki sekur um neitt slíkt. Þar sem almenningur og blaðamenn hafa greinilega skilið játningu mína á þann veg að ég væri að játa allt sem á mig hefur verið borið, tel ég nauðsynlegt að útskýra málið betur.“
Tomasz rekur nokkuð ítarlega samband sitt við konunar, frá sínum sjónarhóli, og fer nokkuð mikið fyrir frásögnum af rifrildum um fjármál í sambandi hans við Vilborgu. Segir hann að slík togstreita hafi bundið endi á sambandið en þau hafi átt í góðum samskiptum og samstarfi eftir sambandsslitin. Hann segir að frásögn hinnar konunnar, Eyrúnar, um sig, sé að miklu leyti röng:
„Eyrún heldur því einnig fram að fjöldi kvenna hafi þurft að horfa upp á meintan ofbeldismann sinn ítrekað taka fyrir ný og ný fórnarlömb. Þessi fullyrðing er með öllu innistæðulaus og hefur ekkert sannleiksgildi. Ég hef átt í heilbrigðum og dýrmætum samböndum við fólk, sem hafa vaxið og dafnað undanfarin ár, þar á meðal konur. Sögusögnum og lygum hefur þó víða verið dreift í þeim tilgangi að skaða sambönd mín með góðum árangri.
Á ótal stöðum í frásögninni er mér lýst sem hættulegum síbrotamanni og góðvini lögreglunnar sem búi yfir ótal gögnum um mig og hafi endurtekið þurft að hafa afskipti af mér. Er því einnig haldið fram að ég hafi setið um heimili viðkomandi o.fl. Þessar fullyrðingar eru svívirðilegar og get ég ekki skilið það öðruvísi en að þær séu settar fram til að draga upp sem dekkstu mynd. Staðreyndin er sú að lögreglan hefur aldrei þurft að hafa afskipti af mér vegna refsiverðs brots og er sakaskráin mín hrein. Á málaskrá minni sem sýnir öll mál sem hafa komið upp tengt mér frá því ég varð lögráða eru smávægileg umferðarlagabrot og ein tilkynning frá Eyrúnu þegar ég var í sjálfsvígshættu og hún hrædd um mig. Að halda því fram að ég sé þekktur síbrotamaður með hala af gögnum hjá lögreglunni er auðvelt að afsanna sem ég hef nú gert með gögnum og staðfestingum frá yfirvöldum.“
Grein Tomaszar er löng en hann segir að árásir á sig og fólk sem honum stendur nærri hafi knúið hann til að stíga fram. Í lok greinarinnar segir:
„Ég hef sannarlega misstigið mig í nánum samböndum og mun ég aldrei gera lítið úr því. Ég hef gengist við hegðun minni og trúnaðarbresti í garð ástvina minna á þessum tíma og endurtekið beðist afsökunar og leitað mér aðstoðar fagfólks. Ég get hins vegar ekki gengist við þeim ásökunum eða sögusögnum sem nú ganga í skjóli #MeToo byltingarinnar og ekki eru sannar.
Ég óska eftir því að þessum árásum linni og ég fái rými til að halda áfram með líf mitt.“