Laust eftir miðnætti í nótt hafði löregla afskipti af manni við veitingastað í miðborg Reykjavíkur sem var í stunguvesti og með sveðju. Var maðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var kærður fyrir brot á vopnalögum og síðan látinn laus. Voru stunguvestið og sveðjan haldlögð.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Á tíunda tímanum í gærkvöld voru afskipti höfð af manni í hverfi 105 en hann var með rafstuðkylfu (taser) á sér. Var vopnið haldlagt.
Laust fyrir klukkan 5 í morgun voru tveir ungir menn í annarlegu ástandi handteknir í miðborginni, grunaðir um líkamsárás. Voru þeir vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins en ekki er búið að bóka upplýsingar um árásarþola.
Á tíunda tímanum í gærkvöld var tilkynnt um þjófnað á rútufelgum og dekkjum í Kópavogi. Sá sem tilkynnti um þjófnaðinn sá þjófinn aka burtu frá vettvangi. Málið er í rannsókn.