Laila Hjaltadóttir telur viðskiptahætti flugfélagsins Wizz air vera óboðlega og ólöglega. Hún átti pantað flug með félaginu til London/Luton þann 5. þessa mánaðar. Ferðinni var heitið til Antalya í Tyrklandi. Laila og samferðarfélagi hennar höfðu bókað gistingu í Luton þar sem verja átti einni nótt.
Samdægurs kom tilkynning frá Wizz air í sms þess efnis að fluginu myndi seinka um klukkustund. Laila kippti sér ekki upp við það. En um það leyti sem hún ætlaði að leggja af stað til Keflavíkur kom annað sms frá Wizz air, þess efnis að fluginu hefði verið aflýst. Var vísað á vef Wizz air til að endurbóka eða fá endurgreitt.
En eiginleg endurgreiðsla virðist í raun ekki í boði. „Það sem þeir bjóða upp á, þetta er svo mikil snilld, er að endurgreiða plús 20% ofan á miðaverðið, en inn á Wizz air reikning, sem þýðir að peningarnir þínir liggja læstir inni hjá þeirra eigin flugfélagi. Þú getur ekki notað þessa peninga öðruvísi en að bóka flug með þeim aftur,“ segir Laila og þurfti hún að endurtaka þetta til að blaðamaður tryði henni.
„Það sem meira er, að áður fyrr gilti þetta í þrjú ár en núna aðeins í eitt ár, ef þú notar þetta ekki eyðist þetta út, ef þú notar inneignina til að bóka annað flug og það klikkar þá áttu engin réttindi á endurbókun, því þú varst að fljúga fyrir þeirra náð og miskunn.“
Laila komst á áfangastað með herkjum, hún þurfti að borga fyrir ónotaða hótelnótt í Luton og þetta var allt saman heilmikill kostnaður. Laila er núna stödd í góðu yfirlæti í Antalya í Tyrklandi og flýgur heim þann 23. júlí, með öðru flugfélagi en Wizz air, sem betur fer, segir hún.
Hún segir fargjaldið vissulega hafa verið ódýrt en þessi framkoma við viðskiptavini sé óboðleg og hún ætlar með þetta lengra. Hún segir jafnframt að ómögulegt sé að ná í starfsfólk hjá Wizz air og það eina sem sé í boði sé vélmenni í síma. Auk þess þurfi að greiða hátt gjald fyrir símtöl í flugfélagið og ef félagið metur það svo að viðskiptavinur hafi fengið aðstoð á netinu séu rukkaðar 15 evrur.
Um tilgang væntanlegrar málsóknar sinnar á hendur Wizz air segir Laila:
„Þetta snýst ekki um peninga heldur bara það að mér finnst hræðilegt að til sé flugfélag sem leyfir sér að koma svona fram við fólk. Sérstaklega þegar í þessu lendir fólk sem á litla peninga og er að reyna að ferðast ódýrt.“
Laila segist hafa gerst hálfgerður sérfræðingur í kvörtunum á hendur Wizz air kjölfar þessarar uppákomu og hafi hún meira að segja fengið demants-viðurkenningu fyrir virka þátttöku í Facbook-hópum og -síðum um Wizz air. Þar segir hún að birtist ófagrar sögur og má sjá sýnishorn af neikvæðri umræðu í skjáskotum sem hér fylgja.
„Fólk er að lenda á kolvitlausum flugvöllum, starfsmenn Wizz air eru þar hvergi sjáanlegir og fólk hefur orðið bíða eftir rútum klukkutímum saman og síðan ferðast með þeim allt að 600 km. Fólk hefur síðan verið að fá gjafakort fyrir mat og drykk upp á fjórar evrur.“
Hún bendir á að sé flugi aflýst innan tiltekinna tímamarka eigi farþegar rétt á skaðabótum. „Ég ætla að stefna þeim prinsippsins vegna, ekki af því ég hafi tapað svo miklum peningum á þessari vitleysu,“ segir Laila.