Þeir voru nýlega dæmdir til dauða af dómstól í Donetsk. Taldi dómstóllinn að þeir njóti ekki verndar samkvæmt Genfarsáttmálanum sem hermenn þar sem þeir hafi verið málaliðar í her Úkraínu, ekki venjulegir hermenn.
Denys Pusjylin, leiðtogi hins yfirlýsta lýðveldis, sem aðeins Rússar, Sýrlendingar og Norðurkóreumenn viðurkenna, hefur nú numið hlé á aftökum úr gildi og því er ekkert því til fyrirstöðu að þremenningarnir verði teknir af lífi.
Tass fréttastofan skýrir frá þessu.
Þremenningarnir áfrýjuðu dauðadómnum og segja aðskilnaðarsinnar í Donetsk að endaleg niðurstaða muni fást í máli þeirra nú í júlí.
Dmiitrij Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, sagði á þriðjudaginn að hann gæti ekki útilokað að þremenningarnir verði skotnir en gat þess einnig að Rússar ætli ekki að skipta sér af dómskerfinu í Donetsk. Fáum dylst þó að Rússar ráða lögum og lofum í Donetsk og fjarstýra aðskilnaðarsinnum.
Margir erlendir miðlar segja að tveir Bandaríkjamenn séu einnig í haldi aðskilnaðarsinna í Donetsk. CNN skýrði frá því fyrir nokkrum vikum að myndir hefðu birst af þeim þar sem þeir voru í haldi aðskilnaðarsinna.