Ný undirafbrigði omikron-afbrigðis kórónuveirunnar eru víða að valda usla, einnig hér á landi. Nýjasta undirafbrigðið heitir „Centaurus“ eða BA.2.75 og greindist á Indlandi í maí. Það hefur fundist í tíu löndum og óttast er að það valdi alvarlegri veikindum en fyrri undirafbrigði og sé meira smitandi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að lítið sé hægt að segja um þetta afbrigði, það sé bara í skoðun. „Við höfum mestar áhygggjur núna af afbrigðinu BA5 sem er í mikilli sókn alls staðar og þar á meðal hér. Það hefur ekki verið hægt að raðgreina í nokkrar vikur þar sem vantað hafa ákveðin efni í greininguna, þannig að við höfum bara getað raðgreint um 10%, en það er greinilega mikill vöxtur í BA5 og samkvæmt síðustu raðgreiningu fær meirihluti smitaðra það afbrigði,“ segir Þórólfur í viðtali við DV.
Hann segir að 320 smit hafi greinst í gær en í síðustu viku fóru þau vel yfir 400 á dag. „Þetta er nokkuð stöðugt, maður vonar að eitthvað gæti farið að draga úr því en auðvitað eru miklu fleiri sem smitast, margir taka bara heimapróf og leita ekki staðfestingar.“
Þórólfur segir að mikill meirihluti þeirra sem eru að greinast núna séu að fá Covid í fyrsta skipti. Hins vegar hafi endursmitum fjölgað mikið. BA5 er að valda miklu meiri endursmitum. Um 20% þeirra sem hafa smitast af omikron eru að fá Covid í annað skipti en hlutfallið er miklu lægra hjá þeim sem smituðust fyrst af omikron en ekki eldri afbrigðum veirunnar.
Þórólfur segir að veikindi covid-smitaðra í dag séu miklu vægari en á fyrstu misserum faraldursins. „Smitin eru almennt miklu vægari núna en var í upphafi. Fyrir því eru margar ástæður. Útbreiddar bólusetningar minnka klárlega alvarleika sýkinga þó að þær komi ekki í veg fyrir smit. Endursmitin eru líka miklu vægari en fyrri smitin voru. Menn eru eitthvað að gera því skóna að afbrigðin sjálf séu núna vægari en það er óljósara. Það er ljóst að óbólusettir geta veikst mjög hastarlega. Ég held að við séum fyrst og fremst að fá vægari sýkingar núna út af útbreiddum bólusetningum.“
„Ég held að við verðum að vera opin fyrir því að það gæti gerst,“ segir Þórólfur við þeirri spurningu hvort tími lokana og harðra sóttvarnatakmarkana gæti komið aftur. „Ef það kæmu upp afbrigði sem væru skæð og slæm og myndu alveg komast undan fyrra ónæmi, þá værum við komin með nýjan faraldur og værum á byrjunarreit. Þá verðum við að nota þessi tæki sem við höfum notað til þessa og hafa virkað. Ef það gerist verða menn að skoða það alvarlega. Annars fengjum við yfir okkur útbreiddan faraldur sem myndi setja hér allt á hliðina, sem hefði gerst ef við hefðum ekki notað þær aðgerðir sem voru tiltækar. Hvort þetta gerist er mjög erfitt að segja til um, mér finnst það frekar ólíklegt,“ segir Þórólfur sem bindur vonir við að útbreidd bólusetning og útbreidd smit muni gefa okkur ónæmi, „að minnsta kosti gegn alvarlegum veikindum, ég hef fulla trú á því, en við getum ekki útilokað hinn möguleikann.“
Fjórða sprautan er núna í boði og er sérstaklega mælt með henni fyrir þá sem eru 80 ára og eldri eða hafa undirliggjandi sjúkdóm. Fjórða sprautan er í sjálfu sér í boði fyrir alla en ekki er sérstaklega mælt með henni núna nema fyrir þessa hópa. „Í haust verður líklega farið neðar í aldursstigann og miðað við 60 ára aldur,“ segir Þórólfur en minnir á að 4-5 mánuðir þurfa að líða á milli bólusetninga.
„Fjórði skammturinn eykur verndina verulega, við sjáum það á mótefnamælingum. Því miður dvínar verndin með tímanum, sérstaklega gegn smiti en dvínar minna gegn alvarlegum veikindum. En við einbeitum okkur helst að eldri hópum,“ segir Þórólfur.
Þess má geta að Þórólfur lætur af störfum í september og þá tekur Guðrún Aspelund við sem sóttvarnalæknir. Hún mun því svara fyrir aðgerðir gegn Covid-faraldrinum frá og með haustinu.