Á morgun, í fyrsta skipti síðan 1912, verður áfengur drykkur seldur í smásölu af einkaaðila til einkaaðila. Smiðjan Brugghús í Vík í Mýrdal hefur nú fengið afhent leyfi fyrir sölu áfengis af framleiðslustað í samræmi við nýsamþykkt lög þar um.
„Þá erum við komin með leyfið fyrir því að mega selja bjór frá framleiðslustað, að því við bestum vitum þau fyrstu í landinu, við ætlum að byrja formlega að selja kl 12 á morgun 14 júlí!!!“ segir í færslu sem brugghúsið birti á Facebook-síðu sinni í dag.
Lögin heimila litlum brugghúsum, svokölluðum handverksbrugghúsum, sem framleiða minna en hálfa milljón lítra á ári að selja eigin framleiðslu á framleiðslustað.
Þó nokkuð var tekist á um málið á Alþingi en pólitísk átök um áfengissölu eru þó ekki ný af nálinni. Eftir fjölmargar tilraunir til þess að höggva í einokunarverslun ríkisins með áfengi unnu fylgismenn frelsis á markaðnum loks sigur í vor.
Fastlega má búast við að önnur brugghús fylgi fordæmi Mýrdælinganna í Bruggsmiðjunni á næstu dögum og mun þannig sölustöðum bjórs fjölga hratt næstu vikur.