Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað nýjan rektor Menntaskólans í Reykjavík ásamt nýjum skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík til fimm ára frá 1. ágúst. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.
Sólveig Guðrún Hannesdóttir sem mun taka við embætti rektors MR um mánaðamótin hefur starfað sem kennari við skólann frá árinu 2008 og verið fagstjóri í líffræði og jarðfræði við skólann. Hún tekur við starfinu af Elísabetu Siemsen sem hefur starfað sem rektor undanfarin fimm ár.
Hún hefur átt sæti í skólamálanefnd Félags framhaldsskólakennara frá árinu 2018 og í stjórn Samlífs, félags líffræðikennara frá árinu 2013. Á árunum 2004–2015 var hún matsaðili umsókna um styrki frá Rannís.
Sólveig er með B.S.-próf í sameindalíffræði, frumulíffræði og örverufræði frá Háskóla Íslands og doktorspróf í ónæmisfræði frá University College í Lundúnum. Hún lauk námi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands árið 2007 og diplómaprófi í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla árið 2021. Sólveig var nýdoktor (Post-doc) við Landspítala – Háskólasjúkrahús árin 2001–2008 og sinnti á sama árabili kennslu við líffræðideild, hjúkrunarfræðideild og læknadeild Háskóla Íslands.
Alls sóttu sex um embættið. Einn dró umsókn sína til baka.
Kolfinna Jóhannesdóttir mun taka við embætti skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík. Kolfinna starfaði sem sviðsstjóri greiningarsviðs Menntamálastofnunar 2018–2022 og sérfræðingur á sviði framhaldsskólamála og teymisstjóri framhaldsskóla- og velferðarmála hjá stofnuninni 2016–2018. Hún var skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar 2011–2014 þegar hún tók við starfi sveitarstjóra Borgarbyggðar sem hún gegndi til ársins 2016.
Kolfinna er með háskólapróf í rekstrarfræðum frá Samvinnuháskólanum á Bifröst, B.S.-gráðu í viðskiptafræði og M.A.-gráðu í hagnýtum hagvísindum frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Hún er jafnframt með diplómu í kennslufræði frá Háskólanum í Reykjavík, diplómu í menntaforystu og stjórnun frá Háskólanum í Nottingham. Hún hefur stundað doktorsnám á sviði menntavísinda frá árinu 2016, fyrst við Háskólann í Nottingham og síðan við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Alls sóttu átta um embættið.