Þann 13. júní síðastliðinn greindi DV frá því að köttur Guðmundar Felixsonar og Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur hefði verið numinn á brott af starfsfólki dýraþjónustu Reykjavíkurborgar. Það sem meira var þá týndi starfsfólk borgarinnar kettinum í kjölfarið.
Leitað hefur verið að kettinum, sem heitir Nóra, í um mánuð og það bar árangur að lokum þar sem kötturinn er nú loksins kominn heim til sín.
Guðmundur greindi sjálfur frá því að Nóra væri komin heim í færslu á Facebook-síðu sinni í dag.
„REYKJAVÍKURBORG FANN KÖTTINN OKKAR
Eftir mánuð að heiman er Nóra loksins komin heim. Hún týndist í Laugardalnum og sást oft í Fjölskyldugarðinum en hvorki starfsfólki garðsins né okkur tókst að fanga hana, enda var hún orðin gríðarlega hvekkt og hrædd við búr.
Loksins í dag náði starfsfólk garðsins að góma hana og koma henni heim. Hún malar og er ánægð að vera heima hjá sér. Vill bara kúra og láta klappa sér. Hún er með skrámu á nefinu en að öðru leyti sjálfri sér lík. Við heimilisfólkið ætlum aldeilis að dekra við hana næstu daga.
Við erum þakklát fyrir hjálpina sem við fengum frá starfsfólki Reykjavíkurborgar á meðan Nóra var týnd. Starfsfólkið á svæðinu sá til þess að hún fengi að borða og þau létu okkur vita þegar til hennar sást.Vonandi verður ævintýri Nóru til þess að Reykjavíkurborg breyti verklagi sínu þegar kemur að svona aðgerðum.“